Stefnumótaröð MBA-námsins við atvinnulífið hófst formlega í dag þegar Ásta Dís Óladóttir stjórnarformaður námsins bauð nemendur velkomna og fór yfir fyrirkomulag stefnumótanna sem verða fjögur á þessu haustmisseri og snúa öll að fjórðu iðnbyltingunni með einum eða öðrum hætti. Það var Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands sem setti fyrsta stefnumótið við Guðbjörgu Heiðu Guðmundsdóttur, framkvæmdastjóra Marel. Guðbjörg var áður stjórnandi í vöruþróun og á nú sæti í alþjóðlegu framkvæmdarstjórn Marel. 

Guðbjörg talaði um spennandi tíma í Marel enda eru þau í hringiðu sjálfvirknivæðingar og stafrænnar þróunar með viðskiptavinum sínum og því virkir þátttakendur í fjórðu iðnbyltingunni. Tækifærin til að skapa lausnir fyrir viðskiptavini með stafrænni tækni eru mörg og Ísland er lítill hluti af heildarveltu félagsins. Þrátt fyrir það skiptir markaðurinn máli því hér fer samtalið og þróunin að miklu leyti fram í beinum samskiptum og samvinnu við stjórnendur fyrirtækja. MBA-nemendur voru með áhugaverðar spurningar um starfsemi Marels og fjórðu iðnbyltinguna sem Guðbjörg svaraði með glæsibrag.

Við þökkum Guðbjörgu kærlega fyrir komuna og hlökkum til næsta stefnumóts sem verður í lok september, en þá förum við úr tækninni í matvælaiðnaði og fæðuöryggi yfir í heilbrigðismál.