Námskeið

Námskeið eru hér listuð miðað við kennsluárin 2024-2026. Sjá nánari námskeiðslýsingu eftir lotum neðar á síðunni.

Fyrra árið

1. misseri - haust 2. misseri - vor

Lota 1

 • Lestur og túlkun ársreikninga
 • Samningatækni
 • Persónuleg færni

Lota 2

 • Greining gagna og ákvarðanataka
 • Rekstrarumhverfið

Lota 3

 • Fjármál fyrirtækja
 • Stjórnun og samskipti
 • Persónuleg færni

Lota 4

 • Art of leadership (IESE)
 • Gervigreind og leiðtoginn

Á öðru misseri í fjórðu lotu er farið í námsferð til IESE Business School í Barcelona

Seinna árið

3. misseri - haust 4. misseri - vor

Lota 5

 • Stafræn markaðssetning
 • Leiðtogar og sjálfbærni
 • Persónuleg færni

Lota 6

 • Nýsköpun
 • Stefnumarkandi stjórnun

Lota 7

 • Árangur í rekstri
 • Fjölmiðlar - stjórn og viðbrögð í krísu
 • Persónuleg færni

Lota 8

 • Alþjóðaviðskipti
 • Lokaverkefni

 

Námskeiðslýsingar

Lota 1

Það er í mörg horn að líta er kemur að lestri og túlkun ársreikninga.  Í námskeiðinu verður farið yfir hvað ársreikningar eru og hvernig raunveruleg notkun þeirra fer fram í atvinnulífinu. 
 
Fjárhagsupplýsingar fengnar úr ársreikningi eru ráðandi þáttur í því að meta greiðsluhæfi vegna mögulegra lánveitinga lánastofnana, og hvað gæti ráðið verðlagningu slíkrar lánveitingar. Félagið sem gefur út ársreikninginn getur einnig verið til skoðunar af hálfu fjárfesta með möguleg kaup í huga.
Til að ársreikningurinn gagnist þarf lesandinn að vita hvað skiptir máli, hvað þar er að finna og hvað beri að skoða sérstaklega, einnig hvað beri að varast.   
Helstu reglur er lúta að framsetningu og frásögn liða í ársreikningi koma víða að. Bæði getur verið um ársreikning að ræða sem saminn er út frá lögum um ársreikninga, en einnig getur verið um IFRS uppgjör að ræða. Námskeiðið reynir að draga fram einkenni beggja reglna og þá helst að hvaða leiti IFRS uppgjör eiga að vera meira upplýsandi fyrir lesendur ársreikninga.
 
Að námskeiði loknu munu nemendur hafa öðlast leikni í að vita hvar viðeigandi upplýsingar eru í ársreikningnum, geta myndað sér grófa skoðun á stöðu viðkomandi félags og geta borið saman félög þar sem það á við, og jafnvel brugðið máli á hvar það á ekki við.   
 

Námskeiðið miðar að því að efla samningafærni þátttakenda með því að kynna helstu hugtök og kenningar í samningafærni, með virkri þátttöku í samningaæfingum og umræðum, auk greiningar samninga og samningaferla.

Lögð er áhersla á að dýpka þekkingu og skilning á samningum, samningaferlum og samningatækni, ekki hvað síst til að opna augu þátttakenda fyrir þeim tækifærum sem samningar bjóða og að auka líkurnar á að þátttakendur grípi þau tækifæri sem gefast til samninga. Útgangspunktur námskeiðsins er: Góður samningamaður leitast við að finna leiðir til að bæta afkomu allra samningsaðila en er jafnframt vakandi fyrir því að gæta eigin hagsmuna.

Í náminu er lögð áhersla á að byggja upp persónulega færni nemenda í námskeiðunum sjálfum, s.s. með samningatækni. Þetta er gert með því að kenna fólki að byggja upp ferilskrá, fræða og þjálfa í almennri framkomu og framkomu í fjölmiðlum. Farið í uppbyggingu á starfsferli og kennslu á Linkedin og þær tæknilegu útfærslur sem eru mikilvægar hverju sinni.

Lota 2

Í námskeiðinu er fjallað um ýmis atriði sem auka færni nemenda við að greina flókin viðfangsefni og vinna með tölur til að undirbyggja ákvarðanir. Annars vegar er fjallað um sálfræðilegan bakgrunn ákvarðanatöku og hins vegar er farið í ýmis verkfæri sem geta nýst, meðal annars ákvörðunartré og helstu aðferðir í tölfræði.

 • Úrlausn flókinna viðfangsefna
 • Helstu tölfræðiaðferðir
 • Ákvarðanir einstaklinga og hópa
 • Gagnagreining
 • Upplýsingastjórnun

Í námskeiðinu öðlast nemendur þekkingu og skilning á hagfræðilegri greiningu og þjálfun í að leysa viðfangsefni í nútíma fyrirtækjarekstri. Kynnt eru helstu hugtök í efnahagslífinu og fjallað er m.a. um viðskiptaumhverfi, framboð og eftirspurn, kostnað, samkeppni, hegðun neytenda og verðstefnu. Kynntir eru m.a. þættir úr atvinnuvega- og kerfishagfræði og rekstrarhagfræði smærri fyrirtækja og sýnd er beiting leikjafræði í starfsumhverfi fyrirtækja. Í námskeiðinu eru hugtök einkum skýrð í formi dæma um notkun.

Hæfniviðmið:
Nemendur þekki vel og geti skilgreint og notað helstu hugtök rekstrarhagfræðinnar:

markaðir og framboð og eftirspurn, þ.m.t. vörumarkaðir og aðfangamarkaðir og ytri þættir sem hafa áhrif
kostnaður, þ.m.t. fastur og breytilegur kostnaður, jaðarkostnaður, meðalkostnaður, sokkinn kostnaður
samkeppni, þ.m.t. samkeppnisreglur
hegðun neytenda, þ.m.t. viðbrögð við breytingum á þáttum eins og verði og tekjum, hámörkun nytja
stefna fyrirtækja, þ.m.t. verðstefna og fjárfestingar, ákvarðanir um að hætta eða hefja rekstur
þá skilji þeir og geti útskýrt samhengi helstu þjóðhagsstærða, sérstaklega í íslensku samhengi, og áhrif þeirra á rekstur og fjárhag fyrirtækja.

Lykiláhersla er á að nemendur geti notað hagfræðilega greiningu við að leysa viðfangsefni í nútíma fyrirtækjarekstri.

Lota 3

Í námskeiðinu verður fjallað um þá tækni sem hefur reynst gagnleg við fjármálastjórnun fyrirtækja og þá innsýn sem fjármálafræðin veitir þegar leitað skal lausna á ýmsum viðfangsefnum. Lögð verður áhersla á að kynna fræðilega undirstöðuþætti í fjármálum fyrirtækja og tengja þá við atvinnulíf og fjármálamarkað á Íslandi.

 • Vextir og vaxtareikningur
 • Mat fjárfestingarverkefna
 • Greining skulda- og hlutabréfa
 • Áhætta og ávöxtun
 • Fjármögnun og fjármagnsskipan

Í námskeiðinu er farið yfir helstu þætti stjórnunar, sem snúa að stjórnandanum sjálfum og starfsfólki.

Forsenda þess að geta verið farsæll í því að stjórna öðrum er að vinna vel með sjálfan sig og því verður byrjað á því að fara í persónuleg þróun stjórnenda.

Svo verður farið verður yfir mismunandi nálgun við stjórnun, stjórnunarstíla og aðstæðubundna stjórnun.

Einnig þá breyttu framtíð sem við horfum fram á hvað varðar vinnu, vinnustaði, vinnuumhverfi, vinnuafl og vinnumarkað.

Ítarlega verður farið í mannauðsstjórnunarferlið, frá a-ö. Þar ber helst að nefna ráðningar, frammistöðustjórnun, uppsagnir o.fl. 

Loks verður komið inn á lykilþætti góðrar breytingastjórnunar.

Í náminu er lögð áhersla á að byggja upp persónulega færni nemenda í námskeiðunum sjálfum, s.s. með samningatækni. Þetta er gert með því að kenna fólki að byggja upp ferilskrá, fræða og þjálfa í almennri framkomu og framkomu í fjölmiðlum. Farið í uppbyggingu á starfsferli og kennslu á Linkedin og þær tæknilegu útfærslur sem eru mikilvægar hverju sinni.

Lota 4

Viðfangsefni námskeiðsins er listin að leiða hóp einstaklinga. Fjallað um mikilvægi hvatningar út frá ólíkum nálgunum og aðferðum sem þurfa að taka mið af aðstæðum hverju sinni. Þá er einnig fjallað um traust, markmið og helgun í starfi. M.a. eru tekin raundæmi úr heimi fótboltans og fer hluti kennslunnar fram á fótboltavelli FC Barcelona þar sem nemendur hitta fyrir fyrrverandi leikmenn liðsins.

 • Leiðtogafærni
 • Teymisvinna
 • Hvatning

Á námskeiðinu kynnast þátttakendur lykilhugtökum gervigreindar og leiðtogafærni. Fjallað verður um hvað gervigreind er, hvernig hún virkar og hverjar eru helstu takmarkanir hennar. Rýnt verður í tækifæri leiðtoga til að nýta gervigreind í daglegum störfum, til dæmis í sambandi við nýtingu gagna, ákvarðanatöku, árangur og líðan starfsfólks sem og eigin þjálfun og leiðtogafærni. Fjallað verður um siðferðileg álitamál sem tengjast nýtingu gervigreindar í atvinnulífinu. Unnið verður með gervigreind í gegnum gagnvirkar æfingar sem tengjast viðfangsefnum leiðtoga. Námskeiðið er byggt upp með fyrirlestrum, umræðum, hópavinnu og verkefnavinnu. 

Lota 5

Á námskeiðinu verða kenndar aðferðir til að ná athygli neytenda sem byggja á að sameina skilning á gögnum og hegðun neytenda. Nemendur munu öðlast dýpri skilning á því hvaða þættir gegna lykilhlutverki í vali og upplifun viðskiptavina á stafrænni öld.

Notkun samfélagsmiðla, uppbygging markaða
Virðistilboð vörumerkja
Gögn frá samfélagsmiðlum og CRM
Verkfærakista fyrir stjórnun vörumerkja

Í námskeiðinu er fjallað um breytt rekstrarumhverfi fyrirtækja þar sem aukin krafa er gerð um að þau axli umhverfis- og samfélagslega ábyrgð. Rætt verður um helstu þætti sem snúa að sjálfbærni í rekstri. Til þess að standa undir auknum kröfum um að fyrirtæki stuðli að sjálfbærni og axli ábyrgð á því sviði geta þau nálgast viðfangsefni með áherslum samfélagslegrar ábyrgðar. Námskeiðið byggir á PRME-viðmiðum um ábyrga menntun stjórnenda. Farið verður yfir helstu kenningar sem umfjöllunarefnið byggir á. Þá verður m.a. fjallað um innri og ytri þrýsting, alþjóðlega og innlenda sáttmála, staðla og leiðbeiningar, s.s. Nasdaq, UFS-viðmið, UN Global Compact, Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna og Parísarsamkomulagið.

 • Stefnumiðuð samfélagsábyrgð fyrirtækja
 • Kenningar og skilgreiningar
 • Innri og ytri hvatar
 • Hlutverk leiðtoga og starfsmanna
 • Sáttmálar, viðmið, staðlar og leiðbeiningar
 • Þríþætt skýrslugerð

Í náminu er lögð áhersla á að byggja upp persónulega færni nemenda í námskeiðunum sjálfum, s.s. með samningatækni. Þetta er gert með því að kenna fólki að byggja upp ferilskrá, fræða og þjálfa í almennri framkomu og framkomu í fjölmiðlum. Farið í uppbyggingu á starfsferli og kennslu á Linkedin og þær tæknilegu útfærslur sem eru mikilvægar hverju sinni.

Lota 6

Viðfangsefni námskeiðsins er nýsköpun, ný tækifæri, ný viðskiptalíkön og stofnun fyrirtækja. Fjallað er jöfnum höndum um nýsköpun í nýjum fyrirtækjum og í fyrirtækjum sem eiga langa sögu að baki. Sérstök áhersla er á ný verkefni þar sem von er um að hið nýja muni breyta leikreglum samkeppni. Oft er mikil óvissa um þarfir viðskiptavina og hvernig hægt er að koma til móts við þær með nýjum afurðum eða aðferðum. Í námskeiðinu læra nemendur hvernig bregðast má við þeirri óvissu.

 • Frumkvöðlar; samskipti og samvinna stofnenda
 • Nýsköpun í starfandi fyrirtækjum
 • Þróun viðskiptahugmyndar
 • Viðskiptalíkön í nútíð og framtíð
 • Gervigreind; tækifæri og áskoranir

Námskeiðið kynnir til sögunnar hugmyndafræði, kenningar og verkfæri sem stefnumótun hvílir á. Áhersla í námskeiðinu er á leiðir og aðferðir við greiningar sem miða að mótun stefnu og innleiðingu hennar. Horft er til ólíkra nálgana fyrirtækja við að skapa virði og viðhalda samkeppnisforskoti með stefnumótun, en sérstök áhersla er í námskeiðinu á þá þætti sem tengjast samkeppnisumhverfi fyrirtækja. Enn fremur er horft til þess hvernig stefnumótun tengist mælingum á árangri sem og eftirfylgni stefnumótunar.  

 •  Mótun stefnu
 •  Innri greining / ytri greining
 •  Framtíðarsýn, markmið, mælikvarðar á árangur  
 •  Innleiðing stefnu og eftirfylgni 
 •  Skipulag, ferlar og fólk

Lota 7

Í námskeiðinu er lögð megináhersla á rekstrarstjórnun þar sem skipulag ferla sem tengjast árangri í rekstri skipuheilda er í brennidepli. Aukin skilvirkni skipuheilda byggist á bættri samhæfingu aðgerða og samtvinnun ferla sem breyta aðföngum í afurðir, óháð því hvort um er að ræða þjónustuferla eða framleiðslu. Mikilvægt er að skilja flæði inn og út úr slíkum ferlum og geta búið til líkön sem endurspegla skilvirkni þeirra ásamt því að geta greint samband á milli skipulags ferlis og árangurs með það að markmiði að ákveða hverju þarf að breyta til þess að ná meiri skilvirkni og minni sóun.

 • Aðgerðastjórnun
 • Skilvirkni
 • Vörustjórnun
 • Þjónustustig
 • Gæði án sóunar/LEAN

Á námskeiðinu er farið yfir vinnsluferli frétta í ljósvakamiðlum og samskipti við viðmælendur. Nemendur fá þjálfun í að svara fyrir erfið mál í setti ásamt því sem farið er yfir líkamsstöðu og hegðun í viðtölum. Þá er einnig farið yfir mikilvæg atriði við gerð fréttatilkynninga, samskipta-, kynningar- og áfallaáætlana.

 • Vinnuferli frétta á  ljósvakamiðlum
 • Undirbúningur fjölmiðlaviðtala
 • Þátttaka í viðtölum
 • Almannatengsl
 • Áfallaáætlanir

Í náminu er lögð áhersla á að byggja upp persónulega færni nemenda í námskeiðunum sjálfum, s.s. með samningatækni. Þetta er gert með því að kenna fólki að byggja upp ferilskrá, fræða og þjálfa í almennri framkomu og framkomu í fjölmiðlum. Farið í uppbyggingu á starfsferli og kennslu á Linkedin og þær tæknilegu útfærslur sem eru mikilvægar hverju sinni.

Lota 8

Í námskeiðinu verður lögð áhersla á aðferðafræði alþjóðaviðskipta til þess að greina tækifæri á
alþjóðlegum mörkuðum og tengja sögulegt mikilvægi alþjóðaviðskipta við stöðuna á alþjóðlegum
mörkuðum í dag. Í þeim tilgangi verður farið yfir mikilvægi alþjóðaviðskipta í innlendu og erlendu
samhengi ásamt yfirferð um hnattvæðingu viðskipta síðastliðin 150 ár. Notast verður við raundæmi og
reynslusögur frá innlendum og erlendum fyrirtækjum. Þá verður farið yfir helstu reglur og samninga
um alþjóðaviðskipti með vörur og þjónustur. Leitað verður svara við því hverjar séu helstu áskoranir í
alþjóðaviðskiptum í dag og að lokum verður farið yfir framtíð alþjóðaviðskipta og áhrif stafrænnar
framleiðslu á neyslu einstaklinga og fyrirtækja. Hvaða greinar eru að vaxa hraðast með aðstoð
stafrænnar þjónustu og stafrænnar neyslu? Hvar liggja möguleikar um frekari vöxt í framtíðinni?

Í lok MBA-námsins vinna nemendur hagnýtt lokaverkefni þar sem þeim gefst tækifæri til að kafa dýpra inn á sitt áhugasvið undir handleiðslu leiðbeinenda sem hafa sérþekkingu á viðkomandi sviði.

Fjölbreytni einkennir þessi verkefni og hafa þau verið unnin fyrir ólíkar atvinnugreinar:

 • Nýsköpunarverkefni
 • Rannsóknarverkefni
 • Hagkvæmnisathuganir
 • Þróun viðskiptahugmynda eða innleiðingarverkefni 
 • Verkefni í samvinnu við fyrirtæki og stofnanir í íslensku atvinnulífi

Fyrirtæki og stofnanir eru hvött til að hafa samband við MBA-námið ef forsvarsmenn þeirra hafa áhuga á að fá nemendur til að vinna að verkefnum í tengslum við reksturinn.

Vinna við lokaverkefni hefst strax við upphaf síðasta misseris námsins og vinna nemendur að verkefninu út misserið.