Executive MBA-námið við Háskóla Íslands fagnaði 25 ára afmæli, 19. nóvember sl., með glæsilegri jólagleðiveislu á Kjarval, í samstarfi við Executive MBA Alumni-félagið. Viðburðurinn var vel sóttur af núverandi nemendum og útskrifuðum stjórnendum úr fjölmörgum geirum íslensks atvinnulífs og markaði tímamót fyrir forystunám sem hefur mótað íslenska stjórnendur í aldarfjórðung.
Ásta Dís Óladóttir, prófessor og stjórnarformaður Executive MBA-námsins, bauð gesti velkomna og stiklaði á stóru í sögu námsins. Hún rifjaði upp að námið væri elsta Executive MBA-nám landsins og hefði markað spor í íslensku atvinnulífi frá fyrsta degi. Þá lagði hún sérstaka áherslu á framlag Runólfs Smára Steinþórssonar prófessors, sem átti afgerandi þátt í stofnun þess árið 2000.
„Runólfur var án efa helsti hvatamaðurinn að stofnun Executive MBA-námsins við Háskóla Íslands. Hann hafði skýra framtíðarsýn fyrir námið, var vakinn og sofinn yfir verkefninu og lagði grunninn að þeim gildum sem enn einkenna það. Ég leyfi mér að fullyrða að við höfum byggt á þessari sýn hans allar götur síðan,“ sagði Ásta Dís.
Sterk grunngildi og sérhæfing sem móta námið
Ásta Dís minnti á að Executive MBA-námið hafi frá upphafi byggst á skýrum grunngildum sem enn einkenna það:
-
Náin tengsl við íslenskt atvinnulíf – með reyndum kennurum og gestafyrirlesurum úr leiðtogastörfum og frumkvöðlastarfi.
-
Sterkt og lifandi tengslanet nemenda og útskrifaðra stjórnenda, sem er eitt það öflugasta á Íslandi.
-
Hagnýtt og krefjandi nám sem nýtist strax í starfi, metið af atvinnulífinu og byggt á raunverulegum áskorunum stjórnenda.
-
Kennsla á íslensku, sem tryggir að forystuþekking byggist upp og haldist innan íslensks atvinnulífs og stjórnsýslu.
67 öflugir nemendur – og tengslanet sem stækkar ár frá ári
„Við erum nú með 67 nemendur í náminu í dag, afar öflugan hóp á bæði fyrsta og öðru ári,“ sagði Ásta Dís. „Þetta þýðir að tengslanet Executive MBA-námsins, sem er þegar eitt það sterkasta á landinu, stækkar og styrkist með hverju árinu sem líður.“
Tæplega 700 útskrifaðir stjórnendur
Á 25 árum hafa tæplega 700 stjórnendur og sérfræðingar lokið náminu. Margir starfa nú í lykilstöðum í stærstu fyrirtækjum landsins, hjá ríki og sveitafélögum, og í alþjóðlegum verkefnum, ,,ég er ákaflega stolt af því hversu fjölbreyttan og kraftmikinn hóp við höfum útskrifað á þessum árum,“ sagði Ásta Dís.
Samheldið samfélag sem horfir fram á við
Afmælishátíðin endurspeglaði þann styrk, samheldni og metnað sem hefur einkennt námið allt frá upphafi. Nemendur og útskrifaðir stjórnendur mynda samfélag í gegnum Executive MBA Alumni félagið þar sem áhersla er lögð á að styðja aðra, miðla reynslu og skapa ný tækifæri fyrir einstaklinga, fyrirtæki og íslenskt samfélag.
Executive MBA-námið stendur því sterkara en nokkru sinni áður, með traustar grunnstoðir, skýra framtíðarsýn og tengslanet sem heldur áfram að vaxa ár frá ári.
