
Þegar Rannveig Eir Einarsdóttir útskrifaðist með Executive MBA frá Háskóla Íslands árið 2009 var íslenskt atvinnulíf í sögulegri kreppu. Efnahagshrunið hafði lamað fyrirtæki, störf voru fá og óvissan mikil. Fyrir Rannveigu varð námið hins vegar vendipunktur. Það veitti henni ekki aðeins faglega færni heldur líka sjálfstraustið og framtakskraftinn sem síðar varð lykillinn að því að hún steig út úr öruggu stjórnendastarfi eftir rúm 25 ár og sneri sér alfarið að eigin rekstri sem hún og eiginmaður hennar höfðu byggt upp á hliðarlínunni.
„Ég fór í námið til að efla mig faglega og víkka sjóndeildarhringinn. Mig langaði að taka meiri ábyrgð, þróast sem stjórnandi og öðlast víðari skilning á viðskiptum,“ segir hún.
Skrýtnir tímar en mikilvæg reynsla
Útskriftin árið 2009 féll inn í mjög sérstakt tímabil í íslensku samfélagi. „Atvinnulífið var alls ekki öflugt á þessum tíma. Fólk var lítið að skipta um störf, fyrirtækin voru varfærin og ný tækifæri lágu ekki á hverju horni,“ rifjar hún upp. Þrátt fyrir það fékk hún strax fjölbreyttari verkefni innan þess fyrirtækis sem hún starfaði þá, sem reyndust bæði krefjandi og þroskandi.
„Verkefnin urðu mun víðtækari og reyndu á þá þekkingu sem ég hafði öðlast í náminu og hjálpuðu mér að sjá hvernig ég gæti nýtt ný verkfæri í starfi.“
Kjarkurinn til að breyta um stefnu
Þegar Rannveig lítur til baka sér hún að námið gerði meira en að efla þekkingu. Það gaf henni kjark til að stíga ný skref. „Eftir námið fann ég að ég var tilbúin að breyta til. Ég held að ég hefði einfaldlega ekki treyst mér til að hætta í fyrirtæki sem ég hafði starfað hjá í rúm 25 ár ef ég hefði ekki farið í MBA-námið. Það gaf mér trú á eigin getu og kjarkinn til að snúa mér alfarið að okkar eigin rekstri sem við hjónin höfðum byggt upp á hliðarlínunni um árabil.“
Saman stofnuðu þau REIR verk, fjölskyldufyrirtæki sem í dag er öflugur aðili á sviði mannvirkjagerðar og fasteignaþróunar. „Við erum mjög stolt af því sem við höfum byggt upp. Það hefur verið krefjandi en líka ótrúlega lærdómsríkt og gefandi,“ segir hún.
Víðari sjóndeildarhringur
Eitt af því sem hún metur mest við námið er víðsýnin sem hún öðlaðist. „Ég hafði mjög gott af því að hitta fólk úr ólíkum geirum. Maður lærir að rekstur er rekstur, sama hvar maður starfar, og að nánast sömu lögmál gilda alls staðar,“ segir hún.
Hún bætir við að MBA-námið hafi gert henni kleift að skilja ólík tungutök og hugsunarhátt í mismunandi atvinnugreinum. „Það er ómetanlegt að geta tekið þátt í fjölbreyttum umræðum, áttað sig á samhengi mála og haft yfirsýn yfir viðskiptaumhverfið í heild.“
Áskoranir stjórnenda í dag
Þegar hún horfir fram á veginn segir Rannveig að kröfur til stjórnenda hafi aldrei verið meiri. „Við lifum á tímum hraðra breytinga, ekki síst vegna gervigreindar og annarrar tækniþróunar. Það gerir það að verkum að stjórnendur þurfa að halda sér vel við efnið, vera forvitnir og opnir fyrir nýjungum.“
Hún leggur sérstaka áherslu á mikilvægi gagnrýninnar hugsunar. „Stjórnendur þurfa að tileinka sér gagnrýna hugsun, ekki síst nú þegar gervigreindin er að ryðja sér til rúms. Það er nauðsynlegt að geta lagt mat á upplýsingar, greint á milli þess sem skiptir máli og þess sem er ótraust. Það er lykilatriði í ákvarðanatöku í nútíma viðskiptaumhverfi.“
Jafnframt telur hún samskiptahæfileika ómissandi og aldrei eins mikilvægta eins og í dag. „Að geta virkjað fólk, hlustað og séð tækifærin sem felast í breytingum er lykillinn að árangri. Stöðnun er einfaldlega ekki kostur.“
Að lokum segir Rannveig að hún mæli heilshugar með Executive MBA-náminu við Háskóla Íslands. „Ég myndi eindregið ráðleggja fólki að sækja þetta nám ef það vill styrkja stöðu sína í krefjandi starfsumhverfi, víkka sjódeildarhringinn og auka sjálfstraust sitt. Þetta er ein besta fjárfesting sem hægt er að gera í sjálfum sér – og hún skilar sér margfalt til baka.“