Nemendur á 2.ári MBA-námsins áttu stefnumót við Everest-fara þann 12. ágúst síðastliðinn þegar þeir Heimir F. Hallgrímsson, lögfræðingur og fasteignasali, og Sigurður Bjarni Sveinsson, fjallaleiðsögumaður, hittu hópinn yfir kvöldverð.

Íslenska þjóðin fylgdist með afrekum þeirra við Everest fjall í sumarbyrjun en þeir náðu á topp fjallsins þrátt fyrir miklar áskoranir bæði á leið sinni upp fjallið en ekki síður niður. Greindust þeir báðir með COVID-19 á leið sinni niður af fjallinu og þurftu í framhaldi að dvelja í einangrun á hóteli í Katmandú, höfuðborg Nepal.

Þeir félagar ræddu meðal annars um mikilvægi teymisvinnu en enginn klífur slíkt fjall einsamall, til þess þarf mikla samheldni, þrautseigju og gríðarlega mikla aðlögunarhæfni. Einnig nefndu þeir að það væri ekki endilega áfangastaðurinn sem slíkur heldur ferðalagið í heild sinni sem væri svo mikið stærra og meira.  Þetta eru allt þættir sem nemendur í MBA-námi ættu að kannast vel við eftir fyrri hálfleik námsins og geta nýtt sér til að takast á við þær áskoranir sem framundan eru.