Síðustu þrjá daga hafa MBA-nemar við Háskóla Íslands sótt alþjóðlega MBA námskeiðið The Art of Leadership við IESE Business School í Barcelona.

Í IESE eru fræðimenn og fyrirlesarar á heimsmælikvarða og miklar umræður í tímum út frá Case vinnu nemenda. Viðfangsefnið er „Listin að leiða“ og hefur verið fjallað um það á mjög fjölbreyttan hátt, meðal annars út frá því hvaða eiginleikum góður leiðtogi þarf að búa yfir til að ná árangri. Þá fengu nemendur tækifæri til þess að heimsækja FC Barcelona á Camp Nou og fræðast um La Masia og mikilvægi þess að hafa sterka sjálfsmynd á bak við vörumerkið sitt. Þá var einnig farið yfir það hversu mikilvægt það er fyrir teymið að beita gagnrýnni hugsun, að hafa allt vel skipulagt, að hafa skýra stefnu og miðla henni.

Ástríðan frá La Masia alumni og fyrrverandi leikmönnum Barcelona sýndi MBA nemendum hversu vel Barcelona hefur innleitt gildin sín í menningu liðsins í gegnum tíðina. Nemendur okkar sögðu meðal annars  „Það var svo hvetjandi að hlusta á hvernig þeir töluðu um „fjölskylduna“ sem Barcelona er, aðferðafræðina og eininguna í liðinu“.

Þetta var góður dagur fyrir okkur öll og færði íslenska ,,MBA liðið“ enn þéttar saman.

Image
Mynd af MBA nemum og kennurum við Camp Nou í Barcelona