
Eftir að hafa starfað í atvinnulífinu bæði hjá öðrum og með eigið fyrirtæki, og svo í langan tíma í sveitarstjórnarmálum þar af 12 ár sem bæjarstjóri fannst Halldóri Halldórssyni, MBA 2012, og framkvæmdastjóri Íslenska kalkþörungafélagsins kominn tími á að endurnýja sjálfan sig. Sú endurnýjun væri mikilvæg til að vera hæfari til að takast á við ný verkefni. MBA-námið féll, að hans mati, vel að þessu markmiði.
Halldór hafði kynnt sér námið vel bæði innanlands og erlendis. Það var samt einhver þjóðleg blanda þarna stuttu eftir efnahagshrunið sem varð til þess að mér fannst MBA-nám á íslensku vera áhugaverðast. „Fyrir hrun hefði ég eflaust farið í erlendan skóla.“ Væntingar Halldórs til námsins voru þær að nálgast fræðin að nokkru leyti upp á nýtt en um leið með aðferðafræði MBA þar sem hópavinna er mikil og framlag nemenda er mikið. Námið stóðst hans væntingar.
Hann segir að námið hafi ekki breytt sér sem einstaklingi en eiginleikar hvers og eins komi ávallt í gegn. Hins vegar hafi námið slípað hann til og fært honum verkfæri sem hann noti miklu meira eftir námið en fyrir það. Leiðtogastíllinn hafi ekki breyst að hans mati en orðið að nokkru leyti tæknilegri án þess að glata persónulegum eiginleikum. Námið hafi einnig opnað fleiri dyr varðandi starfsferilinn.
Aðspurður segist Halldór nota fleiri verkfæri varðandi mannauðsstjórnun bæði í starfsviðtölum með reglulegum hætti og einnig í ráðningarviðtölum. Þá liggi vinna við stefnumótun betur fyrir honum eftir námið. Það sé minna hik við bæði formlegar og óformlegar breytingar eins og á skipuriti og starfslýsingum, vegna þess að námið hafi bætt við verkfærum og einnig sjálfstrausti þó töluvert hafi það verið fyrir og að sumra mati alveg nóg svo sem. Í núverandi starfi vinni hann fyrir alþjóðlegt fyrirtæki þar sem menntun starfsfólks í stjórnun sé margs konar. Hann finni vel að hann standi styrkari fótum í því umhverfi vegna MBA-námsins.
Tengingarnar skipta máli
Halldór segir að það hafi verið öflugur hópur þarna 2010–2012, stórkostlegir einstaklingar sem hafi náð vel saman. Sú tenging sé mikilvæg því þarna hafi verið fólk úr flestum geirum atvinnulífsins. Það sé mikilvægasta tengingin, þ.e. að eiga aðgang að þessu fólki ef á þurfi að halda. Það hafi skipt máli eftir útskrift þó vitanlega hafi samskiptin minnkað. En það sé alltaf hægt að hafa samband og það geri þau mörg hver. Mikilvægasta tengingin sé þó einlæg vinátta við nokkra af þeim sem voru samtíða honum í náminu.
Halldór var einnig formaður MBA-félagsins um tíma og hefur ávallt lagt áherslu á að mæta á þá viðburði sem boðið er upp á. Ekki takist það alltaf en sem betur fer oft. Golfmótin fari alveg fram hjá honum því hann hafi aldrei spilað golf. Það hafi gerst fyrstu árin eftir námið að hann hafi verið beðinn um að koma inn sem gestur í námið. Þótt hann hafi ekki komið inn í MBA-námið upp á síðkastið kemur Halldór reglulega sem gestur í önnur námskeið.
Halldór segir jafnframt að MBA-námið hafi undirbúið hann fyrir áskoranir í íslensku viðskiptalífi með þeirri aðferðafræði sem þar var kennd og með breyttum hugsunarhætti varðandi notkun þeirra „verkfæra“ sem hann hafi áður nefnt. Þetta séu auðvitað aðferðir sem hafi verið kenndar í náminu en ekki síður að vera á tánum fyrir því sem nýtt komi inn. Mikilvægt sé að staðna ekki.
En hvaða hæfni telur Halldór að stjórnendur framtíðar þurfi? Hann segir að alhliða læsi verði sífellt mikilvægara. Þá eigi hann við læsi á fólk og breytileika. Afstaða fólks til vinnustaðar hafi breyst mikið en kröfur fyrirtækja hafi ekki minnkað heldur frekar aukist. Þess vegna þurfi stjórnendur að tileinka sér allt aðra aðferðafræði varðandi stefnumótun og stjórnun heldur en fyrir 10 eða 20 árum. Það þurfi að leggja meira á sig til að fólk hafi áhuga á vinnustaðnum. Þar sem það tekst ertu með verulega öflugt starfsfólk sem geri ótrúlega hluti. Það þýði nefnilega ekkert að kvarta undan breyttum tímum. Það þurfi að aðlagast þeim og stjórnendur þurfi að gera meira en það. Þeir þurfi að vera með í því að breyta og hafa forystu þar.
Að lokum spyrjum við Halldór að sígildri spurningu. Hvaða ráð myndi hann gefa þeim sem eru að íhuga að fara í Executive MBA-nám í dag? Einfaldlega að fara í námið með opnum huga og reyna oft að gleyma því hugtaki að ekkert sé nýtt undir sólinni. Það er ekki rétta hugarfarið heldur að hlusta meira en tala og njóta þess að bæði námsefni, kennarar og aðrir nemendur geta fært manni svo mikið ef maður er opinn fyrir því.