Image
Mynd af mæðgunum Díönu og Karen

Mæðgur í MBA-námi Háskóla Íslands
 

„Ég lagði handboltaskóna á hilluna í maí í fyrra, mamma var að íhuga að fara í nám og við sáum þá tækifæri til að skella okkur saman og sitjum því hlið við hlið í MBA-námi í Háskóla Íslands,“ segir Karen Helga Díönudóttir, rekstrarstjóri vöruhúss Landspítalans og fyrrum fyrirliði Hauka í handbolta.

Fyrsta önnin af fjórum er frá og þær mæðgur verja nú hverri helgi saman. Annarri á skólabekk en hinni við lærdóm. Móðir hennar, Díana Óskarsdóttir, forstjóri Heilbrigðisstofnunar Suðurlands (HSU), segir þetta fyrirkomulag afar hentugt.

„Þetta er svo mikið tækifæri. Við vorum einmitt að læra saman um helgina. Mjög skemmtilegt. Við erum nánar og þetta skemmir það ekki. Við erum gott teymi,“ segir Díana um þær mæðgur og lýsir því hversu námsfúsar þær séu. Díana hefur stýrt HSU í þrjú ár og segir að nú þegar hún þekki starfið vel hafi myndast tækifæri til að sækja fram. Fá nýjar hugmyndir.

„Ég fæ ákveðnu fjármagni úthlutað fyrir stofnunina og þarf að vinna innan þess ramma. Nú lærum við margt sem tengist fjármálum fyrirtækja og þá kvikna fleiri hugmyndir um rekstur og hvernig fyrirtæki á almennum markaði geta eflt sig. Það gagnast mér vel í starfinu og gefur nýjar hugmyndir um rekstur stofnunarinnar og ég næ að hugsa út frá öðrum sjónarhornum,“ segir hún og lýsir því hvernig hún hafi ung hugsað sér að drífa nám af en síðan stundað það reglulega meðfram vinnu til að efla sig í starfi.

„Ég var búin að hugsa um að fara í nám og varð MBA námið í HÍ fyrir valinu. Ég tel námið geta gefið mér góða sýn inn í íslenskt atvinnulíf sem ég ætla að nýta mér í mínu opinbera starfi; tækifæri til að hugsa út fyrir boxið.“

Eftir þetta nám verð ég komin með enn fleiri verkfæri til að vinna með í mínu daglega starfi. Ég á nóg eftir og nóg að gefa af mér,“ segir hún en Díana hefur meðal annars meistaragráðu í lýðheilsuvísindum og flutti á Selfoss þegar hún fékk stöðuna.

„Já, ég ákvað að flytja með starfinu til að taka fullan þátt í samfélaginu. Mér finnst það skipta miklu máli þegar maður sinnir svona ábyrgðarmiklu hlutverki og er sýnt mikið traust til þess. Stofnunin er að stækka og við að taka að okkur stór verkefni. Við erum til að mynda að opna nýtt hjúkrunarheimili á Selfossi og tókum fyrir stuttu yfir rekstur hjúkrunarheimilis í Vestmannaeyjum.“

Karen er með meistaragráðu í Iðnaðarverkfræði og stjórnun og styrkir nú stjórnunarþekkinguna enn frekar í MBA náminu. „Þótt mamma hafi upphaflega kveikt áhugann núna var ég sjálf með MBA-nám á bak við eyrað. Ég vildi styrkja mig sem stjórnanda, læra nýja hluti en um leið endurnýja þá þekkingu sem ég hef nú þegar,“ segir hún.

„Einnig vildi ég tengjast góðu fólki; stækka tengslanetið og njóta. Mér finnst gaman að læra og hef gaman af því að vera í þessu námi,“ segir hún. Tími hafi verið komin á nýja hluti eftir fimmtán ár með Haukum í handbolta á hæsta stigi.

„Handboltinn var farinn að segja til sín líkamlega enda mikið álag. Svo var metnaður kominn meira í vinnuna. Þetta var orðið gott,“ segir hún. Báðar starfa þær innan heilbrigðisgeirans og segir Karen það ekki hafa verið á stefnuskrá sinni enda verkfræðingur. Hún hafi þó gripið tækifærið þegar það bauðst.

„Það er gefandi að vinna í þessu umhverfi. Það gefur manni mikið að vera partur af metnaðarfullum markmiðum heilbrigðisþjónustu landsins.“ Þær sækja styrk til hvor annarrar og segir Díana dóttur sína mikinn námshest.

„Ég á þrjú börn. Karen er elst og komin í stjórnunarstöðu og ég sá að þetta skref myndi styrkja hana í því sem hún er að gera,“ segir Díana. „Já, þetta kemur vel út,“ segir Karen. „Við lærum saman og gerum góðan dag úr þessu. Það er gott að hafa gagnkvæman stuðning enda enn ekki búnar að klippa á naflastrenginn,“ segir hún og hlær.

„Við erum góðar vinkonur og það er gaman að gera þetta með mömmu. Ég stekk á Selfoss og við lærum saman. Það er mikil lærdómsást í okkur.“