Hátíðarathöfn Executive MBA 2024 - viðurkenningar og verðlaun
Við hátíðarathöfn Executive MBA við Háskóla Íslands eru veittar viðurkenningar til framúrskarandi nemanda.
Viðskiptafræðistofnun verðlaunar þann nemanda sem hlýtur hæstu meðaleinkunnina í náminu hverju sinni og að þessu sinni voru veitt tvenn verðlaun, dúx námsins og semi-dúx.
Dúxinn í Executive MBA náminu 2022 – 2024 er Heiða Óskarsdóttir sem var með hæstu meðaleinkunnina og ágætiseinkunn. Birna Eiríksdóttir, er semi - dúx, einnig með ágætiseinkunn.
Sá sem samnemendur lærðu mest af
Stjórn MBA námsins og starfsfólk veit hversu miklu máli skiptir að vanda vel valið á þeim einstaklingum sem teknir eru inn í námið, því nemendur læra ekki síður jafn mikið hvert af öðru eins og af kennurum og gestum.
Nemendur völdu Engilbert Hafsteinsson eða Betta eins og hann er alltaf kallaður. Um hann sögðu þau ,,Hann á auðvelt með að taka stjórn og er áberandi klár leiðtogi með mikla reynslu úr atvinnulífinu, hann hefur laumað sögum og ýmsum gullmolum að samnemendum og kemur alltaf með nýjan vinkil á hlutina.“
Sá nemandi sem best var að vinna með í náminu
Samnemendur völdu Lilju Guðrúnu Sæþórsdóttur sem þann einstakling er þeim þótti best að vinna með í náminu. Þau sögðu ,,hún er eldklár með þægilega nærveru og vinaleg, traust og vinnusöm. Hún er óþreytandi að deila kunnáttu sinni og aðstoða. Hún var alltaf boðin og búin - algert gull. Lilja Guðrún gerði það sem þurfti að gera og gerði það vel.“
Með bestu samskiptafærnina og forystuhæfileikana
Nemendur völdu Evu Margréti Kristinsdóttur sem þann einstakling í náminu sem hafði að þeirra mati bestu samskiptafærnina og einnig mestu forystuhæfileikana. Um Evu sögðu samnemendur ,,Einstaklega þægileg í umgengni, róleg og yfirveguð og skýr í samskiptum, á auðvelt með að tengjast öllum. Frábær manneskja í alla staði með hjarta úr gulli. Hún á auðvelt með að koma fyrir sig orði, sýnir öllum kærleik og fer ekki í manngreinaálit, þessi kona lýsir allt upp í kringum sig.“
Við óskum þeim öllum innilega til hamingju með verðskuldaðar viðurkenningar.