Header Paragraph

Draumastaða að kenna MBA-nemum við Háskóla Íslands

Image
Sigríður Benediktsdóttir

Sigríður segir það hafa verið draumur hjá sér að starfa hjá Háskóla Íslands en hún hefur ávallt viljað viðhalda tengslum við Ísland. MBA-námið sé krefjandi og skemmtilegt fyrir þá sem vilja virkja hæfileika sína, sérstaklega ef jafn vel er staðið að vali nemenda og gert er við Háskóla Íslands. 

Við fengum hana til að fara yfir feril sinn og greina stöðuna á fjármálamörkuðum heimsins enda forvitnilegt að fá hennar greiningu í þeim miklu hræringum sem nú eru. Sigríður og fjölskylda hennar hafa lengst af búið í New Haven í Connecticut í Bandaríkjunum þar sem Yale Háskóli er. Hún og eiginmaður hennar Arnar Geirsson, yfirlæknir hjartaskurðlækninga í Yale-háskóla, hafa verið við nám og störf frá árinu 1998 og samhliða því alið upp þrjá syni, þá Benedikt Jens, Kristján Geir og Arnar Helga. Rannsóknir Sigríðar eru á sviði fjármálastöðugleika, sem felur í sér alþjóðafjármál, peningamálahagfræði, þjóðhagsvarúð og hagfræði fjármálastofnanna og fjármálamarkaða. Í sumar eru þau að flytja til New York til að hefja störf við Columbia Háskóla.

Stiklað á stóru yfir feril Sigríðar Benediktsdóttur: 

  • Sigríður lauk BS-prófi í hagfræði frá Háskóla Íslands 1995 og BS-prófi í tölvunarfræði frá sama skóla 1998.
  • Hún lauk doktorsprófi í hagfræði frá Yale-háskóla, með áherslu á fjármál og tölfræði 2005.
  • Frá árinu 2007 hefur Sigríður starfað með hléum sem kennari og aðstoðarmaður deildarforseta við hagfræðideild Yale-háskóla í Bandaríkjunum, samhliða því sinnt rannsóknum á sviði fjármálahagfræði, með áherslu á fjármálamarkaði.
  • Hún starfaði sem hagfræðingur hjá Seðlabanka Bandaríkjanna á árunum 2005 til 2007.
  • 2009 til 2010 sat Sigríður í rannsóknarnefnd Alþingis um aðdraganda og orsakir falls íslensku bankanna árið 2008.
  • Sigríður tók við starfi framkvæmdastjóra fjármálastöðugleika í Seðlabankanum árið 2012 og gegndi því til ársins 2016.
  • Hún sat í kerfisáhætturáði Danmerkur frá ársbyrjun 2013 til 2016.
  • Hún sat í bankaráði Landsbankans frá 2017 til 2021.
  • Hún starfaði sem sérfræðingur hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum á árunum 2020 til 2022.

Draumastaðan við Háskóla Íslands
En hvað er það sem dregur Sigríði alltaf heim til Íslands? „Ég hef alltaf verið mjög tengd við Ísland. Mig hefur lengi langað til að koma og kenna hér, sérstaklega við Háskóla Íslands. Það var algjörlega draumastaða,“ segir Sigríður, þar sem hún situr við skrifborðið sitt í Gimli, byggingu háskólans sem dregur nafn sitt úr norrænni goðafræði og vísar til staðarins sem þeir sem munu lifa af Ragnarök. 

Sigríður segir að eftir að hún hafi flutt aftur út árið 2016 eftir nær fimm ára viðdvöl hér á landi hafi hún gætt að tengslum við landið í gegnum störf sín. 
„Fyrstu fjögur árin var ég í stjórn Landsbankans. Mig langaði að koma og skoða bankana innan frá og það var bara mjög skemmtileg og áhugaverð vinna. Ég starfaði svo hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðinum meðfram kennslu í eitt og hálft ár við að greina fjármálakerfi í Bretlandi. Þegar því verkefni lauk ákvað ég að sækja um stöðu við Háskóla Íslands. Ég hef alltaf viljað hafa tengingu við  Ísland og alltaf haft áhuga á íslensku efnahagslífi og þetta starf finnst mér mjög góð leið til að halda þeirri tengingu,“ segir Sigríður sem segist stefna að því að vera hér á landi í að minnsta kosti átta vikur á ári auk þess sem hún hefur yfirleitt dvalið hér í að minnsta kosti sex vikur yfir sumartímann. 

Mikill ávinningur af MBA-námi þar sem valið er inn af kostgæfni
MBA-nám er hagnýtt meistaranám á sviði viðskipta þar sem nemendum er ætlað að virkja hæfileika sína til þess að takast á við nýjar áskoranir og efla tengsl við íslenskt viðskiptalíf. 
„Ég verð að segja að ég var mjög stressuð áður en ég byrjaði að kenna MBA-nemunum hér en ég er almennt stressuð manneskja, þó að fólk sjái það oft ekki utan á mér. Mér finnst nefnilega krefjandi að kenna mjög dreifðum hópi með mismunandi bakgrunn,“ segir Sigríður og útskýrir að það sé vandratað að bæta við þekkingu fólks með dreifðan bakgrunn þar sem það geti gerst að bæta við þekkingu þeirra sem hafa hana fyrir en um leið auka skilning þeirra sem hafa menntun á öðru sviði á efninu. Þetta hafi þó tekist vonum framar og hlakkar hún til framhaldsins. „Samsetning hópsins var mjög góð og greinilegt að það var faglega staðið að valinu í hópinn. Þau voru augljóslega að styrkja þekkingu hvors annars á því sviði sem þau höfðu sjálf þekkingu á. Þannig þetta var alveg ótrúlega skemmtileg reynsla og mér fannst þau koma með mjög góðar spurningar sem lýstu góðu innsæi,“ segir hún og ítrekar mikilvægi þess að vandað sé af kostgæfni inn í MBA-nám. „Ég held nefnilega að maður græði mest á góðum samskiptum við samnemendur sína,“ segir Sigríður og bætir við að fjöldi nemenda skipti einnig miklu máli til að fá næga athygli kennara og mynda náin tengsl en sjálf segist hún hafa upplifað það að hún hefði kynnst nemendunum við kennsluna. 
„Mér finnst alltaf gaman að hitta fólk,“ segir hún og bætir því við orðum sínum til stuðnings að þegar MBA-nemar við Háskóla Íslands hafi komið í heimsókn til New Haven árið 2019 hafi hún boðið þeim öllum heim og heillast mjög af hópnum. „Það er mikill ávinningur af þessu námi, það eru alveg hreinar línur.“

Yndi af stærðfræði en lítinn áhuga á pólitík
Sigríður segist alltaf hafa haft mikið yndi af stærðfræði, val hennar eftir stúdentspróf frá Verslunarskóla Íslands hafi því helst staðið á milli greina sem byggðust á þeirri grein og úr varð að hún fór í hagfræði og því næst tölvunarfræði. „En mér finnst galli við hagfræðina hvað hún er pólitísk, ég hef voðalega lítinn áhuga á pólitík sjálf. En ég vissi hvaða aðferðafræði ég vildi nota. Hagrannsóknir og fjármál innan hagfræðinnar eru meðal stærðfræðilegastu undirgreinanna, svo úr var að ég valdi þær.“

Góðir kennarar fylgjast vel með
Sigríður segist leggja metnað í að fylgjast með því sem er að gerast í hagkerfi heimsins hverju sinni. „Mér finnst nauðsynlegt fyrir háskóla kennara að fylgjast vel með því sem er að gerast á hverjum tíma og ég er einnig mjög áhugasöm um það sem ég er að vinna að,“ segir hún.
Um þessar mundir eru miklar hræringar á fjármálamörkuðum heimsins og því er ekki hægt að láta hjá líða að spyrja Sigríði um það hvernig hún metur stöðuna alþjóðlega og hvort hún telji að þær breytingar sem gerðar voru á eftirlitskerfinu hér á landi eftir fjármálaáfallið haldi. 
„Mér sýnist að þær breytingar haldi bara mjög vel. Það er algerlega ljóst að ástæðan fyrir því að þessir tveir meðalstóru bankar í Bandaríkjunum féllu í vor var meðal annars að 2018, fyrir tilstilli Trump, var búið að losa um regluverk fyrir millistóra banka á þann hátt sem ekkert annað land í heimi hefur gert. Það er stóra ástæðan fyrir þeim féllu, þeir voru með mjög lélega lausafjárstýringu og lítið sem ekkert ytra eftirlit með henni. Fall Credit Suisse má hins vegar ekki rekja til eftirlitsaðila heldur til mjög slæmra ákvarðana þar innandyra á síðustu árum.“

Seðlabankinn á góðri vegferð
Sigríður viðurkennir að hún sé mikið spurð út í ákvarðanir Seðlabankans um þessar mundir og hafi hún lýst þeirri skoðun sinni að hún telji bankann á góðri vegferð þegar kemur að því markmiði að ná verðbólgu niður. „Það er ekki hægt að ætlast til þess að þeir geri mikið meira en það, allavega með vaxtatækinu, svo með öðrum tækjum er mögulega hægt að tryggja fjármálastöðugleika. En já, ég tel að þetta sé nokkuð nauðsynlegt. Ég hef þegar lýst þeirri skoðun minni að ég tel að Seðlabankinn hafi lækkað vexti allt of mikið þegar Covid reið yfir. Mér fannst engin augljós ástæða fyrir því af hverju ætti að lækka vexti á þeim tímapunkti þar sem COVID-niðursveiflan var mjög tengd ákveðnum atvinnuþáttum sem hefði verið hægt að bregðast við með sértækum aðgerðum. Mér er í raun algjörlega óskiljanlegt hverju átti að reyna að ná fram með þessari lækkun á vöxtum, varla var ætlunin að ná fram auknum fjárfestingum þegar óvissan var svo mikil. Við lækkuðum vexti í raun mun meira heldur en allir aðrir,“ segir hún og segir með áherslu að hún telji ákvörðunina hafa verið misráðna og ein megin ástæðu mikillar innlendrar þenslu og skuldsetningu núna. 

Íslenskir bankar eiga að standa þetta af sér
„Það var rætt um það þegar vextir voru lágir að það væri slæmt fyrir fjármálakerfið vegna þess að þá væri meiri þrýstingur á vaxtamun hjá þeim og núna þegar vextir eru háir er það líka sagt slæmt fyrir fjármálakerfið. Ég held að fjármálakerfið hér geti alveg vel við unað og staðist hvort tveggja,“ segir Sigríður og útskýrir að þótt einhverjir haldi því fram að Silicon Valley Bank hafi fallið vegna vaxtahækkana í Bandaríkjunum.
 „Íslenskir bankar geta alveg staðið þetta af sér þó að þessi eini bankinn í Bandaríkjunum hafi farið á hliðina vegna þess að vextir voru hækkaðir. Það er nær einsdæmi að bankar geti ekki stýrt vaxtaáhættu, líkt og Silicon Valley, ótrúlega lélegt satt best að segja,“ segir hún og hristir höfuðið brosandi. „En já, fjármálakerfið hér á alveg að geta staðið þetta af sér eins. Á hinn bóginn, ef vanskil aukast verulega mikið þá þarf kannski að fara í sértækar aðgerðir fyrir einstaka viðskiptavini en ég held að bankakerfið á Íslandi sé með nægilega mikið eigið fé til þess að geta átt við það.“

Heimurinn aldrei jafn skuldsettur
Rannsóknir Sigríðar þessa dagana snúast helst að skuldahæfni nýmarkaðsríkja út frá vaxtahækkunum í heiminum en hætta á gjaldfalli vegna þeirra er mun meiri en annars staðar. Nefnir hún sem dæmi Sri Lanka, Svartfjallaland, Gana, Kenía og Angóla. „Þjóðir, fyrirtæki og einstaklingar hafa í heild aldrei verið jafn skuldsett og við erum í dag. Ég hef af því ákveðnar áhyggjur,“ segir hún og útskýrir að með tilkomu Kína sem eins stærsta lánadrottins í heimi þá er skuldastaða heimsins sé líka ólík því sem við höfum áður þekkt. Ef semja þarf um endurskipulagningu skulda þá er það ekki lengur AGS eða Parísarhópurinn sem eru í aðalhlutverki heldur í mörgun tilfellum Kínverjar.
Hún teljur að Bandaríkin eigi eftir að ná góðri lendingu fljótlega.  Efnahagsstaðan í Bandaríkjunum er svipuð og á Íslandi, stoðirnar eru styrkar og atvinnuleysi í lágmarki þrátt fyrir háa verðbólgu. Bandaríkin virðast þó hafa náð betri tökum á verðbólgunni en hér á Íslandi.“  

Staðan góð á Íslandi
Sigríður segir stöðuna hér á landi almennt góða ef litið er til þess að verð á sjávarafurðum, orku og áli sé nokkuð hátt. „Þannig okkar náttúruauðlindir eru að verða verðmætari ef eitthvað er og Ísland virðist vera alveg mjög aðlaðandi fyrir ferðamenn. Þannig það lítur í raun allt vel út á Íslandi núna. Mér finnst fólk tala stundum Ísland niður, meðal annars til að reyna að ná einhverjum skammtímamarkmiðum, kjarasamningum og fleiru en ég held að staðan sé góð á Íslandi.“ 
Þessari bjartsýnu yfirlýsingu er ágætt að enda á enda er Sigríður orðin spennt að komast út í kalda sumarsólina og hreyfa sig en af því gerir hún mikið. 

Image
Sigríður Benediktsdóttir