Úlf er nýr kennari í Executive MBA námi í Háskóla Íslands. Fjármál fyrirtækja snýr að þeim fjárhagslegu ákvörðunum sem sérhvert fyrirtæki stendur frammi fyrir. ,,Þátttakendur vilja geta tekið góðar ákvarðanir og helst byggja þær á traustum grunni og það er ein helsta ástæðan fyrir því að þeir sækjast eftir Executive MBA námi við Háskóla Íslands, sérstaklega við núverandi aðstæður“, segir Úlf Níelsson, prófessor og kennari námskeiðsins. Í námskeiðinu Fjármál fyrirtækja  kynnast nemendur hagnýtum aðferðum og fá innsýn í greiningartækni og þekkingu sem þarf til þess að taka upplýstar fjárhagslegar ákvarðanir. Hvort sem þátttakendur sinna störfum á fjármálasviði fyrirtækja eða stofnana, eða eru einfaldlega að reyna að skilja fjármál betur, tryggir námskeiðið að þátttakendur hafi góða yfirsýn yfir stýringu fjármála í rekstri fyrirtækja og geti hagnýtt sér það sem kennt er í starfi.
 
Af hverju skiptir þekking á fjármálum fyrirtækja máli?
,,Sérhver ákvörðun sem taka þarf hjá fyrirtækjum varðandi fjármálastjórn byggir á þeim einstöku aðstæðum sem fyrirtækið stendur frammi fyrir. Efnahagsumhverfið, iðngreinin og samkeppnisumhverfið eru m.a. þættir sem allir hafa áhrif á þær ákvarðanir“ segir Úlf.
 
„Mikilvægar ákvarðanir er varða fjármál fyrirtækja ráðast af því hjá hvaða fyrirtæki þátttakandinn starfar og af þeim ástæðum er horft til fyrirtækja í mismunandi atvinnugeirum. T.d. þegar horft er til þess hvaða áhrif skattar hafa á rekstur fyrirtækja, þá er niðurstaðan mismunandi eftir því hvort horft er til Bandaríkjanna eða Íslands þar sem skattalöggjöfin er mjög mismunandi á milli þessara landa“ segir Úlf.
 
Þau sem hafa áhyggjur af því að þau skorti nægan grunn í fjármálafræðum áður en þau hefja námið þurfa ekki að hafa áhyggjur, þar sem byrjað er á grunn atriðum til að tryggja að allir þátttakendur byrji á sömu blaðsíðu.
 
Bakgrunnur
Úlf Níelsson er prófessor í fjármálum við Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands, auk þess sem hann gegnir dósentstöðu í fjármálum við Copenhagen Business School (CBS) þar sem hann kennir fjármála fyrirtækja í MBA námi. Hann lauk doktorsnámi í hagfræði við Columbia háskólann í New York árið 2009 og útskrifaðist þar áður með M.Phil. gráðu í fjármálahagfræði frá Cambridge háskóla í Englandi.
 
Úlf hefur hlotið viðurkenningar fyrir framúrskarandi kennslu við bæði Columbia háskóla og CBS. Rannsóknir Úlfs snúa að fjármálum fyrirtækja og heimila, og samspili þeirra við fjármálamarkaði. Hann hefur einnig hlotið ýmis verðlaun fyrir rannsóknir sýnar, m.a. hin evrópsku De la Vega verðlaun, hin dönsku Sapere Aude verðlaun og Tietgen gull viðurkenninguna.

Úlf hefur sinnt tímabundnum störfum við t.d. Seðlabanka Íslands, Kauphöll Íslands og Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins í Brussel. Loks sinnir Úlf reglulega ráðgjafar- og trúnaðarstörfum fyrir fyrirtæki, stofnanir og dómsstóla, bæði innanlands og erlendis.
 

Image
Úlf Nílesson