Text

„Að fara í nám af þessum toga er góð ákvörðun sem mun styrkja þig og þroska á vegferð þinni, hver sem hún er og hvert hún leiðir þig.“ segir Jón Ólafur, aðspurður um ráð til þeirra sem eru að íhuga Executive MBA nám.

Mynd
Image

Eftir að hafa starfað sem stjórnandi í íslensku atvinnulífi í yfir tuttugu ár fannst Jóni Ólafi Halldórssyni tími til kominn að afla sér nýrrar þekkingar til að takast á við krefjandi verkefni í starfi. Hann vildi kynnast nýjustu straumum og stefnum í stjórnun og atvinnurekstri og máta þá við reynslu sína, enda telur hann brýnt að endurnýja þekkingargrunninn reglulega og fjölga verkfærunum sem hægt er að beita við úrlausn flókinna viðfangsefna dagsins. Jón Ólafur skráði sig í Executive MBA og lauk því árið 2012.

Aðspurður um væntingar sínar fyrir Executive MBA námið við Háskóla Íslands, segist Jón Ólafur hafa kynnt sér það vel og fundið margt áhugavert sem gæti nýst í starfi. Námið stóð undir þeim væntingum, bæði hvað varðar innihald og kennslu. Sérstaklega nefnir hann mikilvægi þess að nemendur deili reynslu sinni innbyrðis og læri hver af öðrum, sem gefi náminu aukið gildi.

Áhrifin á starfsferilinn létu ekki á sér standa. Námið var bæði styrkjandi og þroskandi og studdi við hans vegferð sem leiðtoga. Þó leiðtogastíllinn hafi ekki tekið róttækum breytingum, styrkti námið hann í þeirri sannfæringu að halda áfram á þeirri braut sem hann hafði valið. Tveimur árum eftir útskrift tók hann við starfi forstjóra Olís verkefni sem krafðist bæði ábyrgðar og innsýnar.

Þekkingin sem hann hlaut í náminu nýttist Jóni Ólafi þegar í upphafi nýs starfs. Sérstaklega kom hún að góðum notum í breytingastjórnun, þar sem hann hafði kynnt sér hvernig best væri að hrinda nauðsynlegum breytingum í framkvæmd á markvissan og farsælan hátt. „Öll stjórnun er breytingastjórnun,“ segir hann og bætir við að fyrirtæki sem festist í vananum verði ekki samkeppnishæft til framtíðar.

Í náminu myndast stórt tengslanet. Jón Ólafur eignaðist marga góða vini sem hann heldur tengslum við enn þann dag í dag, og nefnir sérstaklega hvað sambandið við Háskóla Íslands og kennarana hafi verið honum mikilvægt. Tengslin milli námsins og atvinnulífsins telur hann lykilatriði til að tryggja að námið haldi gildi sínu og stuðli að verðmætasköpun og samkeppnishæfni í íslensku atvinnulífi. Eftir útskrift hefur Jón Ólafur leitast við að viðhalda tengslum við MBA samfélagið, og fær reglulega fréttir af starfseminni. Um tíma tók kom hann inn í kennslu sem gestafyrirlesari, sem var góð leið til að viðhalda tengslum við þetta ágæta samfélag og jafnframt til að mynda tengsl við nýja nemendur.

MBA námið undirbjó Jón Ólaf vel fyrir áskoranir í íslensku viðskiptalífi. Hann nefnir sérstaklega mikilvægi þess að stjórnendur tileinki sér hugsunarhátt frumkvöðla og séu sífellt að leita að leiðum til að bæta sig og finna ný tækifæri til vaxtar og verðmætasköpunar. Til þess þurfi stjórnendur að vera skipulagðir, sjá fyrir sviðsmyndir og útbúa áætlanir og viðbragð við þeim. Námið styður vel við þetta og hefur nýst Jóni Ólafi vel allar götur síðan.

Að lokum ræðir Jón Ólafur hvaða hæfni hann telji stjórnendur framtíðar þurfa að búa yfir: framsýni og stefnumótandi hugsun, leiðtogahæfni og hæfni til að hvetja aðra. Stjórnendur verða að vera sveigjanlegir til að takast á við breytingar og geta tekið ákvarðanir byggðar á gögnum og innsæi. Mikilvægt er að stjórnendur njóti trausts meðal samstarfsfólks, viðskiptavina og samfélagsins í heild. Traust byggist á heiðarleika, virðingu og traustri framkvæmd, og á það að fást með verkum ekki orðum einum. Stjórnendur ættu því ætíð að vera öðrum til fyrirmyndar.