4. misseri

Námskeiðslýsing fjórða misseris á öðru ári MBA-námsins.

Lota 7

Í námskeiðinu er fjallað um breytt rekstrarumhverfi fyrirtækja þar sem aukin krafa er gerð um að þau axli umhverfis- og samfélagslega ábyrgð. Rætt verður um helstu þætti sem snúa að sjálfbærni í rekstri. Til þess að standa undir auknum kröfum um að fyrirtæki stuðli að sjálfbærni og axli ábyrgð á því sviði geta þau nálgast viðfangsefni með áherslum samfélagslegrar ábyrgðar. Námskeiðið byggir á PRME-viðmiðum um ábyrga menntun stjórnenda. Farið verður yfir helstu kenningar sem umfjöllunarefnið byggir á. Þá verður m.a. fjallað um innri og ytri þrýsting, alþjóðlega og innlenda sáttmála, staðla og leiðbeiningar, s.s. Nasdaq, UFS-viðmið, UN Global Compact, Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna og Parísarsamkomulagið.

 • Stefnumiðuð samfélagsábyrgð fyrirtækja
 • Kenningar og skilgreiningar
 • Innri og ytri hvatar
 • Hlutverk leiðtoga og starfsmanna
 • Sáttmálar, viðmið, staðlar og leiðbeiningar
 • Þríþætt skýrslugerð

Í námskeiðinu er lögð megináhersla á rekstrarstjórnun þar sem skipulag ferla sem tengjast árangri í rekstri skipuheilda er í brennidepli. Aukin skilvirkni skipuheilda byggist á bættri samhæfingu aðgerða og samtvinnun ferla sem breyta aðföngum í afurðir, óháð því hvort um er að ræða þjónustuferla eða framleiðslu. Mikilvægt er að skilja flæði inn og út úr slíkum ferlum og geta búið til líkön sem endurspegla skilvirkni þeirra ásamt því að geta greint samband á milli skipulags ferlis og árangurs með það að markmiði að ákveða hverju þarf að breyta til þess að ná meiri skilvirkni og minni sóun.

 • Aðgerðastjórnun
 • Skilvirkni
 • Vörustjórnun
 • Þjónustustig
 • Gæði án sóunar/LEAN

Lota 8

Á námskeiðinu er farið yfir vinnsluferli frétta í ljósvakamiðlum og samskipti við viðmælendur. Nemendur fá þjálfun í að svara fyrir erfið mál í setti ásamt því sem farið er yfir líkamsstöðu og hegðun í viðtölum. Þá er einnig farið yfir mikilvæg atriði við gerð fréttatilkynninga, samskipta-, kynningar- og áfallaáætlana.

 • Vinnuferli frétta á  ljósvakamiðlum
 • Undirbúningur fjölmiðlaviðtala
 • Þátttaka í viðtölum
 • Almannatengsl
 • Áfallaáætlanir

Í lok MBA-námsins vinna nemendur hagnýtt lokaverkefni þar sem þeim gefst tækifæri til að kafa dýpra inn á sitt áhugasvið undir handleiðslu leiðbeinenda sem hafa sérþekkingu á viðkomandi sviði.

Fjölbreytni einkennir þessi verkefni og hafa þau verið unnin fyrir ólíkar atvinnugreinar:

 • Nýsköpunarverkefni
 • Rannsóknarverkefni
 • Hagkvæmnisathuganir
 • Þróun viðskiptahugmynda eða innleiðingarverkefni 
 • Verkefni í samvinnu við fyrirtæki og stofnanir í íslensku atvinnulífi

Fyrirtæki og stofnanir eru hvött til að hafa samband við MBA-námið ef forsvarsmenn þeirra hafa áhuga á að fá nemendur til að vinna að verkefnum í tengslum við reksturinn.

Vinna við lokaverkefni hefst strax við upphaf síðasta misseris námsins og vinna nemendur að verkefninu út misserið.

Í náminu er lögð áhersla á að byggja upp persónulega færni nemenda í námskeiðunum sjálfum, s.s. með samningatækni. Þetta er gert með því að kenna fólki að byggja upp ferilskrá, fræða og þjálfa í almennri framkomu og framkomu í fjölmiðlum. Farið í uppbyggingu á starfsferli samhliða kennslu á Linkedin og þær tæknilegu útfærslur sem eru mikilvægar hverju sinni.