Stefnumótaröð MBA nemenda við stjórnendur í atvinnulífinu heldur áfram og að þessu sinni var það Birna Einarsdóttir, forstjóri Íslandsbanka, sem fjallaði um ýmsar birtingarmyndir fjórðu iðnbyltingarinnar innan bankans.

Birna hefur stýrt Íslandsbanka frá árinu 2008 en síðustu árin hafa orðið gríðarlega miklar framfarir á tæknisviði bankans. Birna fjallaði um hve hratt hlutirnir hafa þróast síðustu ár þegar litið er til stafræns bankaheims og hvernig COVID-19 fleygði Íslandsbanka í raun áfram um mörg ár á afar skömmum tíma. Viðskiptavinir hættu að koma í útibúin og nýttu sér heimabanka og rafræna þjónustu. Birna sagði að framtíð bankastarfsemi sé þó blanda af hvoru tveggja, einfaldri stafrænni þjónustu ásamt persónulegri þjónustu.

Birna fór yfir vegferðina frá endurreisn bankans frá árinu 2009 þegar fyrsti stefnufundurinn var haldinn og gildi bankans skilgreind og kynnti stefnuhús Íslandsbanka. Stefna bankans er að bæta þjónustu við viðskiptavini, en hún er nánast öll á stafrænu formi. Þá ræddi Birna um stefnu bankans á sviði sjálfbærni en þar er miðað að því að rekstur bankans verði til fyrirmyndar í íslensku atvinnulífi út frá alþjóðlegum viðurkenndum viðmiðum um umhverfismál, félagslega þætti og stjórnarhætti (UFS).

Við þökkum Birnu Einarsdóttur fyrir að koma á stefnumót við MBA.