Það er sífellt gleðiefni að fá að sjá hvernig útskrifaðir MBA-nemar koma þekkingu sinni í gagnið að loknu námi. Þar á meðal er Ylfa Björg Jóhannesdóttir sem útskrifaðist árið 2017 og gegnir núna stöðu sölu- og markaðsstjóra hjá Sessor þar sem þekking hennar og reynsla fær að njóta sín til fulls.  
 

Framkvæmdastjóri Sessor og eigandi er Brynjar Gunnlaugsson sem er einmitt á sínu öðru ári í MBA-námi og um þessar mundir vinna þau Ylfa Björg að kynna þjónustu Sessor og hugmyndafræði ásamt Sunnu Arnardóttur ráðgjafa í upplýsingatækni. Saman myndar þríeykið sem drífur þetta unga þekkingarfyrirtæki sem opnar nýja og hagkvæma leið fyrir stjórnendur til að hagnýta sér hugvit og tækni til hagsbótar fyrir starfsmenn sína og rekstur. 
Sessor veitir óháða ráðgjöf og þjónustu á sviði upplýsingatækni þar sem leitast er við að innleiða aðferðir og tækni sem auka afköst og bæta nýtingu á víðum grunni í rekstrarumhverfi fyrirtækja. 
 

Mikilvægi tæknilegra lausna í rekstri fyrirtækja hefur vaxið hratt á undanförnum árum. Nýjungar í upplýsingatækni og hröð þróun kerfa sem auka skilvirkni kalla á það að stjórnendur séu stöðugt á tánum. Það kostar sitt að velja, innleiða og stilla af ný kerfi. Það hins vegar margborgar sig í samanburði við það að keyra á úreltri tækni sem ekki hefur roð í samkeppnina. 

Það er inn í þetta umhverfi í nútímarekstri fyrirtækja sem Sessor kemur til skjalanna. Fyrirtækið er ungt og ferskt í anda en býr að áratuga reynslu, þekkingu í vel menntuðu starfliði sem brennur fyrir árangur og skilvirkni í rekstri viðskiptavina sinna. Stjórnendur íslenskra fyrirtækja þekkja á eigin skinni að góð ráðgjöf getur ráðið úrslitum þegar kemur að því að velja réttu lausnirnar, innleiðingu þeirra og útfærslu — þetta sérstaklega vel við í upplýsingatækni þar sem aldrei má sofa á verðinum. Hér er Sessor sannarlega kostur sem vert er að hafa í huga. 

Við óskum Ylfu Björgu, Brynjari og Sunnu velfarnaðar í þeirra störfum enda er það brýnt fyrir íslenskt atvinnulíf að auka skilvirkni og hagnýta sér hugvit og tækninýjungar. Það er lykill að aukinni velferð og árangri á öllum sviðum rekstrar. Við hlökkum til að fá að fylgjast með Sessor og þessu öfluga þríeyki í framtíðinni. 

Image
""