Þau koma úr ólíkum starfsgreinum: lögfræði, heilbrigðisþjónustu og stjórnun en það sem sameinar þau er MBA-námið við Háskóla Íslands.
Systkinin Eiríkur, Halldóra og Heiða Hauksbörn segja námið hafa breytt sýn sinni á forystu, eflt faglega hæfni og styrkt þau í að takast á við áskoranir í starfi. Þau lýsa náminu sem krefjandi en gefandi ferðalagi sem hefur haft varanleg áhrif, bæði á starfsferil og samskipti þeirra sín á milli.
Skref í átt að nýjum tækifærum
Þegar systurnar Halldóra og Heiða ákváðu, árið 2017, að hefja MBA-nám við Háskóla Íslands höfðu þær báðar þegar byggt upp farsælan starfsferil, önnur sem lögfræðingur og hin sem hjúkrunarfræðingur. Þrátt fyrir ólíkan bakgrunn var sameiginleg löngun hjá þeim báðum til að efla sig, víkka sjóndeildarhringinn og öðlast dýpri skilning á viðskiptum, leiðtogafærni og mannlegum samskiptum. Síðar fylgdi bróðir þeirra, Eiríkur, í fótspor þeirra og hóf sama nám, heillaður af reynslu systranna og þeim jákvæðu áhrifum sem námið hafði haft á þær.
Samferða í krefjandi og gefandi námi
„Ég er lögfræðingur að mennt og fann að mig þyrsti í meiri viðskipta- og fjármálaþekkingu,“ segir Halldóra. „Ég brenn fyrir að breyta og bæta, ekki bara að bregðast við, og MBA-námið var tilvalið skref fyrir mig. Það veitti mér dýpri skilning, sterkari leiðtogafærni og verkfæri til að taka betri ákvarðanir. Ég upplifði mikinn faglegan og persónulegan vöxt.“
Heiða hafði verið lengi í störfum innan heilbrigðiskerfisins þegar hún ákvað að bæta við sig meistaranámi. „Það var litla systir mín, Halldóra, sem hvatti mig til að skella mér með,“ segir hún. „Ég hafði starfað sem hjúkrunarfræðingur frá 2003 og fann að tími væri kominn til að bæta við mig meistaranámi. Þegar hún sagði mér frá MBA-náminu kviknaði áhuginn strax. Ég hef alltaf haft skoðanir á stjórnunarháttum, svo þetta passaði vel.“
Námið sem breytti sýn á forystu
Báðar systurnar lýsa því hvernig MBA-námið hafði áhrif á leiðtogastíl og sjálfstraust þeirra.
„Það kenndi mér að nálgast ákvarðanir út frá bæði fjármálalegu og mannlegu sjónarhorni,“ segir Halldóra. „Ég varð ákveðnari og meðvitaðri leiðtogi, með meiri trú á því að ná fram því besta í fólki.“
Heiða segir að námið hafi gjörbreytt sýn hennar á breytingar og áskoranir: „Ég hef eflst sem leiðtogi og sé vandamál ekki sem hindranir heldur verkefni til að leysa. Ég heillaðist af „Authentic Leadership“ nálguninni og sé að hún getur skilað árangri. Samhliða sé ég þó að innan heilbrigðiskerfisins er enn þörf á að efla faglega og gagnsæja stjórnunarhætti.“
Tengslanet sem lifir áfram
Eftir útskrift hafa systurnar haldið góðu sambandi við samnemendur sína.
„Tengslanetið sem ég byggði upp hefur mótað mig sem leiðtoga,“ segir Halldóra. „Ég legg áherslu á samvinnu, opin samskipti og að virkja kraft teymisins. Þótt ég búi á landsbyggðinni þá held ég tengslum við hópinn í gegnum samfélagsmiðla og viðburði.“
Heiða segir að tengslin hafi reynst mikilvæg: „Við reynum að hittast einu sinni á ári og höfum alltaf samband ef við getum stutt hvort annað. Það er þessi MBA-andinn sem heldur hópnum lifandi.“
Bróðirinn fylgir í kjölfarið
Þegar Eiríkur ákvað að hefja MBA-nám við Háskóla Íslands var hann ekki ókunnugur náminu. Systurnar höfðu báðar lokið því og lýst áhrifunum sem það hafði haft á starfsferil þeirra.
„Ég var lengi búinn að hafa hug á að bæta við mig frekara námi,“ segir hann. „Áhugasvið mitt hefur alltaf legið á sviði stjórnunar og ég hafði skoðað ýmis nám. Þegar ég kynnti mér MBA-námið við HÍ sá ég að fyrirkomulagið með staðlotum hentaði mér vel. Ég hafði líka heyrt mjög vel látið af náminu bæði frá systrum mínum og öðrum sem lokið höfðu MBA-námi frá HÍ.“
Hann segir að reynsla systranna hafi haft bein áhrif á ákvörðun hans: „Þær tala stöðugt um námið og þá frábæru tengingu sem myndaðist milli bekkjarfélaga. Það heillaði mig mikið.“
Námið stendur undir væntingum
Nú, þegar Eiríkur er sjálfur kominn vel á veg í náminu, segir hann það hafa staðið undir öllum væntingum. „Kennararnir eru áhugasamir og skapa lifandi umræður um viðfangsefnin. Námið er krefjandi en um leið hvetjandi. Það sem stendur þó upp úr fyrir mig er bekkjarandinn og hversu samheldinn hópurinn er orðinn. Það hefur farið langt fram úr væntingum mínum.“
Fjölskyldutengsl og samkennd
Þau systkinin segja öll að það sé sérstakt að deila þessari reynslu innan fjölskyldunnar.
„Systur mínar vita nákvæmlega hvað þetta nám krefst mikils tíma og orku,“ segir Eiríkur. „Það er áhugavert að bera saman þá þróun sem orðið hefur á náminu frá þeirra tíma.“
Halldóra segir að það hafi verið ánægjulegt að fylgjast með honum í náminu: „Það hefur verið mjög gaman að sjá hann takast á við þetta verkefni. Maður fær jafnvel smá fortíðarþrá og langar aftur.“
Sjálfstraust, víðsýni og hagnýt verkfæri
Þau systkinin eru sammála um að MBA-námið hafi eflt þau á ólíkum sviðum.
„Sjálfstraustið jókst og ég hvíli miklu meira í gagnreyndri þekkingu,“ segir Heiða. „Ég hef öðlast dýpri skilning á því hvernig rannsóknir og verkfæri geta stutt við ákvarðanatöku, og það nýtist jafnt í starfi sem og í lífinu sjálfu.“ Halldóra bætir við: „Námið gaf mér víðtæka þekkingu á rekstri, stefnumótun og leiðtogahæfni. Það kenndi mér að sjá heildarmyndina, hugsa í lausnum og taka erfiðar ákvarðanir undir álagi.“
„Ég finn hvað það hefur þegar lyft mér upp á sumum sviðum og gert mig að sterkari stjórnanda. Þetta er krefjandi en uppbyggilegt ferli,“ segir Eiríkur.
Tengslanet og samfélag
Þau eru öll sammála um að félagslegi þátturinn hafi reynst jafn mikilvægur og námið sjálft.
„Það sem kom mér mest á óvart var hversu hagnýtt námið er,“ segir Heiða. „Ég nýt þess daglega, bæði í starfi og einkalífi. Þótt minn starfsgeiri sé ekki endilega tilbúinn að nýta sér þá möguleika sem felast í því að ráða fólk með MBA-gráðu, þá hef ég enga eftirsjá.“
Halldóra segir að samnemendur hafi skipt sköpum: „Það sem kom mér mest á óvart var styrkur hópsins, vináttan, heiðarleikinn og traustið á milli okkar. Það gerði það að verkum að maður óx bæði faglega og persónulega.“
Eiríkur tekur undir: „Vinskapurinn og tengslanetið sem þessu fylgir hafa farið langt fram úr væntingum mínum. Það er einn af þeim þáttum sem skiptir mestu máli í náminu.“
Sameiginleg sýn
Þótt þau starfi á ólíkum sviðum, í lögfræði, heilbrigðisþjónustu og stjórnunarstörfum, hafa Eiríkur, Halldóra og Heiða sameiginlega sýn á forystu og fagmennsku. MBA-námið hefur orðið þeirra sameiginlegi grunnur; vettvangur þar sem metnaður, ábyrgð og lærdómur mætast.
Þau segja öll að námið hafi kennt þeim að sjá tækifæri í áskorunum og að forysta snúist fyrst og fremst um að hlusta, læra og leiða af festu og skilningi.
Ráð til þeirra sem íhuga MBA-nám
Aðspurð um hvað þau myndu ráðleggja þeim sem íhuga að hefja MBA-nám eru þau systkinin sammála: það borgar sig að stíga þetta skref.
„Hiklaust, bara skella sér í námið,“ segir Eiríkur. „Það tekur meiri tíma en maður gerir ráð fyrir, en tímanum er vel varið.“
Halldóra tekur undir og bætir við að opinn hugur og virk þátttaka skipti sköpum. „Gerðu það. Námið er krefjandi en gefandi ferðalag. Vertu opin(n), taktu virkan þátt, nýttu tengslanetið og lærðu af fólkinu í kringum þig. Það er það sem gerir námið einstakt.“
Að sögn Heiðu skiptir einnig máli að kynna sér námið vel áður en ákvörðun er tekin. „Ég myndi ráðleggja fólki að tala við þau sem hafa lokið náminu og heyra af þeirra reynslu. Ég hef engan hitt sem sér eftir því að hafa farið í MBA-nám við Háskóla Íslands.“
Við þökkum þessum samstíga systkinum, Eiríki, Halldóru og Heiðu, fyrir gott og innihaldsríkt spjall.
