Í ágúst hefst námskeiðið Leiðtogar og sjálfbærni, í umsjón Tinnu Hallgrímsdóttur. Námskeiðið opnar nemendum sýn inn í breytt rekstarumhverfi fyrirtækja þar sem að aukin krafa er gerð um að þau axli umhverfislega- og samfélagslega ábyrgð. ,,Auknar kröfur um sjálfbærni eru bæði lagalegar, valkvæðar eða koma fram í þrýstingi frá ýmsum aðilum, líkt og atvinnugreinasamtökum og frjálsum félagasamtökum.“ segir Tinna Hallgrímsdóttir, sérfræðingur í loftslagsáhættu og sjálfbærni og kennari námskeiðsins.

Hvort sem þátttakendur sinna störfum í sjálfbærniteymum fyrirtækja eða stofnana, eða eru einfaldlega að reyna að skilja sjálfbærni betur, tryggir námskeiðið að þeir hafi góða yfirsýn yfir tengsl sjálfbærni fyrirtækja við stefnumótun, áhættustýringu og breytingastjórnun og geti hagnýtt sér það sem kennt er í starfi.

Af hverju skiptir þekking á sjálfbærni máli?
Fyrirtæki, stofnanir og félagasamtök njóta góðs af því ef samfélagsleg ábyrgð og sjálfbærni er markvisst innleidd í starfsemi þeirra, m.a. með betri nýtingu afurða, hagræðingu, jákvæðu orðspori auk þess sem áhersla á réttindi og vellíðan starfsfólks eykur ánægju þeirra í starfi. 

,,Svo er miklivægt að skilja að sjálfbærni í rekstri snýst ekki einungis um samfélagslega ábyrgð heldur einnig stýringu á fjárhagsáhættu tengdri sjálfbærni“ segir Tinna. Slík áhætta tengist t.a.m. breytingum á regluverki, umhverfisáhrifum í nærumhverfi eða hjá birgjum eða líkum á mannréttindabrotum í virðiskeðju. Loftslagsbreytingar og hrun líffræðilegs fjölbreytileika geta svo valdið rofi eða breytingum á aðfangakeðjum. Greining á sjálfbærniáhættu og sjálfbærniskýrslugjöf snýst því ekki einungis um skriffinnsku og reglufylgni heldur er hún nauðsynleg til að bera kennsl á þætti sem raunverulega skipta haghafa máli, og er því ein af grunnstoðum nútíma fjármálastýringu. 

Námskeiðið Stafræn markaðssetning, í umsjón Þórunnar Ingu Ingjaldsdóttur, hefst einnig í ágúst.
Markmið námskeiðsins er að nemendur öðlist þekkingu og skilning á mikilvægi markaðsstarfs og mikilvægi markvissrar markaðsstefnu, markaðsaðgerða, markaðsrannsókna, vörumerkjastefnu, vörumerkjavirði og innri markaðssetningar.

Einnig verður lögð áhersla á stefnumótun í markaðsmálum sem og vörumerkja aðgreiningu á markaði til þess að hámarka árangur. Farið verður yfir stafræna markaðssetningu, upplifun viðskiptavina og hvernig er best að kortleggja ferðalag viðskiptavina í gegnum vörur og þjónustu upplifun sem og nýjar áherslur í markaðssetningu með tilkomu gervigreindar. Farið verður yfir nálgun markhópa og hvernig eigi að skapa sérsniðna nálgun á markhópa út frá sóknar stefnu fyrirtækja.

Námskeiðið leiðir nemendur í gegnum lykilþætti í markaðsfræðinni með hagnýtum áherslum fyrir stjórnendur. Með þátttöku Þórunnar fá nemendur tækifæri til að tengja fræðin við reynslu úr alþjóðlegu og íslensku atvinnulífi, með sérstakri áherslu á stafræna hlutann, stefnumótun og árangursdrifna nálgun. 

Námskeiðið Árangur í rekstri í umsjón Magnúsar Ívars Guðfinnssonar hefst í janúar nk. Markmið námskeiðsins er að veita nemendum yfirgripsmikla þekkingu á rekstrarstjórnun og færni til að greina, skipuleggja og bæta rekstrarferla fyrirtækja. Nemendur fá heildstæða innsýn í helstu þætti rekstrarstjórnunar og hvernig þeir nýtast á ólíkum rekstrarsviðum bæði í framleiðslu- og þjónustufyrirtækjum, stórum sem smáum.

Lögð er áhersla á hvernig fyrirtæki nýta auðlindir á borð við tækni, mannauð, skipulag og fjármagn á árangursríkan og hagkvæman hátt til að skapa og afhenda vörur og þjónustu.

Námskeiðið hefst á umfjöllun um ólík rekstrarkerfi og tengsl þeirra við stefnu fyrirtækja. Því næst er fjallað um áætlanagerð, rekstrareftirlit og aðferðir sem tryggja skilvirka auðlindanýtingu, auk tengsla við gæðastjórnun, tæknistjórnun og þjónustustjórnun.

Share