Malena Birna Baldursdóttir

Malena Birna Baldursdóttir, forstöðumaður hjá Íslandsbanka og MBA 2023, hafði alltaf hug á að bæta við sig menntun og fara í framhaldsnám eftir að hún kláraði BS gráðu en önnur verkefni á lífsins leið, s.s. barneignir, starfsferillinn og annað krafðist bæði mikillar athygli og tíma og seinkaði þeim áformum.

„Ég var búin að starfa sem stjórnandi í fjármálakerfinu yfir áratug og upplifði sterkt hraðari breytingar í atvinnulífinu öllu. Þá áttaði ég mig á mikilvægi þess að styrkja mig sem einstakling á öllum sviðum, fjárfesta í sjálfri mér og takast á við nýjar áskoranir. Mig langaði að efla mig sem stjórnanda, styrkja tengslanetið og víkka sjóndeildarhringinn. Ein helsta ástæða þess að ég valdi Executive MBA nám við Háskóla Íslands var að mér fannst það henta mér og mínum bakgrunni best af því sem í boði var. Ég hafði einnig rætt við fyrrum nemendur úr náminu sem gáfu náminu sín bestu meðmæli. Þá hafði það í mínu tilfelli einnig mikið að segja að námið var kennt á íslensku sem mér fannst mikill kostur“ segir Malena.

Aðspurð um væntingar til námins, voru þær að öðlast víðari sýn og sterkari stoðir til að takast á við nýjar áskoranir, jafnt faglega sem og persónulega. Malena leit einnig á námið sem tækifæri til að vinna markvisst með veikleika sína og ná að breyta þeim í styrkleika. „Ég bjóst við krefjandi og hagnýtu námi sem myndi auka mína alhliða þekkingu og færni. Það reyndist rétt og námið stóð fyllilega undir þeim væntingum.“ Þá fannst henni ómetanlegt að kynnast reynslumiklu fólki úr atvinnulífinu sem var tilbúið að deila reynslu sinni og lærði hún margt af því.

Áhrif á leiðtogastíl

Námið styrkti Malenu í að taka upplýstar ákvarðanir, hugsa meira til lengri tíma og um leið að vera fljót að tileinka sér nýja hluti. Það gaf henni líka hugrekki til að prófa nýja hluti, ýtti henni út úr þægindahringnum og víkkaði þannig sjóndeildarhringinn. „Ég varð meðvitaðri um eigin styrkleika og hvernig ég gæti sem best nýtt þá í mínum daglegum störfum. Sem dæmi má nefna að ég nýtti aðferðir úr námskeiðum í stefnumótun og stjórnun þegar við unnum að endurskipulagningu á deildinni minni.“ Einnig var áfanginn The Art of Leadership sem var kenndur hjá IESE Business School í Barcelona einn besti áfangi sem hún hefur setið og lærðu hún dýrmæta lexíu um þá list að leiða teymi út frá mismunandi aðstæðum.

Um tengslanetið segir Malena að hún hafi eignast frábærar vinkonur sem hún geti leitað til og fengið þeirra endurgjöf á ýmsar aðstæður og verkefni sem hún er að kljást við á hverjum degi. Tengslanetið sem myndaðist í náminu hefur reynst henni ómetanlegt.
Malena hefur einnig mætt á viðburði sem MBA Alumni hefur haldið og síðan hefur hópurinn haldið góðum tengslum eftir útskrift með mánaðarlegum hádegishittingum. Ekki má svo gleyma árshátíð hópsins sem alltaf er mikið tilhlökkunarefni.

Undirbúningur fyrir íslenskt viðskiptalíf

MBA námið veitti Malenu breiða yfirsýn sem skiptir máli í íslensku viðskiptalífi. Í gegnum námið hefur hún náð sterkari skilningi á stefnumótun, fjármálum fyrirtækja og leiðtogahæfni. Námið gaf henni réttu verkfærin og valdefldi hana til að gegna fjölbreyttari hlutverkum á núverandi vinnustað, að taka ákvarðanir undir álagi ásamt því að geta unnið með teymum undir allskyns kringumstæðum.

En hvaða hæfni þurfa stjórnendur framtíðarinna að tileikna sér? Að mati Malenu þarf framtíðarstjórnandi að hafa breiða og fjölbreytta hæfni til að ná árangri í síbreytilegu og hröðu umhverfi. Stjórnandi þarf að vera með skýra sýn og hæfileika til að geta leitt hóp í gegnum örar breytingar, vera hvetjandi og góður að miðla upplýsingum. Stjórnandi nútímans þarf að vera með mikinn skilning á allri tækni, gögnum og gervigreind og vera tilbúinn að skoða þau með opnum hug og skilja tækifærin sem í þeim eru fólgin. Ekki má gleyma að stjórnandi þarf að hafa hæfni til að aðlagast hratt að breyttum aðstæðum þar sem heimurinn er sífellt að þróast. Stjórnendur þurfa stöðugt að rýna í hæfni sína til að takast á við þær áskoranir sem framtíðin ber í skauti sér.

Ráðleggingar til framtíðarnema

En hvaða ráð myndi Malena gef framtíðarnemendum? „Ég myndi gefa þau ráð að fara í námið með sem opnastum hug og að leggja sig alla fram í það sem námið býður upp á. Þá er afar mikilvægt að vera virk(ur) í umræðum og leggja vinnu í tengslamyndunina en það er jafnmikilvægur hluti af náminu og kennslan sjálf. Síðast en ekki síst er svo um að gera að njóta ferðalagsins sem Executive MBA námið svo sannarlega er“ segir Malena og við þökkum henni kærlega fyrir. 

Share