Feðgar

Það er alltaf sérstakt þegar fjölskyldutengsl fléttast inn í MBA-námið og ekki oft sem foreldri og afkomandi fara sömu vegferð með aldarfjórðungs millibili. Hér deila feðgarnir Sigurður Garðarsson, MBA 2002, og Garðar Sigurðsson, MBA 2026, reynslu sinni og veita lesendum persónulega og skemmtilega innsýn í MBA-námið þá og nú.

Að fylgja í fótspor föður síns

Garðar rifjar upp að hafa fylgst með námi föður síns á unglingsárunum. Þrátt fyrir ungan aldur fannst honum námið strax mjög áhugavert og hann áttaði sig snemma á því að hann myndi vilja stunda MBA-nám einhvern tímann síðar á lífsleiðinni. Hann man eftir því að vera dreginn, 15 ára gamall, á útskriftarathöfn í HÍ „ekki mest spennandi hluturinn sem 15 ára ungling langar að gera á laugardegi,“ segir hann um athöfn sem í minningunni stóð í 3–4 klukkustundir.

Garðar segir að ákvörðun föður síns um að fara í MBA-nám hafi klárlega haft áhrif á hans eigin ákvörðun. Þó að hann hafi haft áhuga á MBA-námi strax eftir grunnnámið kaus Garðar að fara fyrst á vinnumarkaðinn og safna reynslu. Á endanum hætti hann að bíða eftir „rétta tímanum“ sem kom aldrei og skráði sig í MBA-nám 13 árum eftir útskrift. Garðar hefur alla tíð litið upp til föður síns sem stjórnanda og fylgst með honum gera frábæra hluti í ýmsum stjórnendastörfum.

Þegar hann hóf námið fékk hann góð og raunsæ ráð frá föður sínum: að námið væri vinna og nýta öll þau tækifæri sem gæfust til að læra af samnemendum, kennurum og gestafyrirlesurum. Garðar segir þessi ráð hafa nýst honum afar vel.

Nú þegar Garðar er á lokametrunum, finnur hann vel fyrir því hvernig námið hefur víkkað sjóndeildarhringinn. Hann veit jafnframt að námið muni styrkja hann sem stjórnanda. Garðari finnst ómetanlegt að fá að vinna með hæfum og fjölbreyttum hópi fólks úr mismunandi geirum atvinnulífsins. „MBA-námið er í rauninni að skila mér þeirri þekkingu og tengslum sem ég hafði gert mér væntingar um og mögulega rúmlega það“ segir Garðar.

Afturhvarf til fortíðar

Ákvörðun Sigurðar að fara í MBA-nám var í raun margra ára gömul. Eftir útskrift sem byggingarverkfræðingur í Bandaríkjunum árið 1984 ætlaði hann sér að snúa aftur í MBA-nám strax að ári liðnu. En lífið tók aðrar beygju og það liðu 16 ár þar til Háskóli Íslands byrjaði að bjóða upp á MBA-nám sem hann stökk þá strax á.

Ef Sigurður hefði getað gefið sjálfum sér eitt ráð í upphafi hefði það verið að leggja önnur áhugamál tímabundið til hliðar og gefa sér tíma fyrir MBA-námið. Hann gaf Garðari sömu ráð en bætti jafnframt við að forgangsraða vel og vera undirbúinn fyrir kröfur námsins. Með léttu ívafi bætir Sigurður við að MBA-námi loknu þurfi flestir að fara í „félagslega endurhæfingu.“

Það sem hann vonar helst að Garðar taki með sér úr náminu er trú á að hann hafi færni í að takast á við fjölbreytt stjórnunarverkefni á starfsferlinum. Hann segir að MBA-námið útvegi öflug verkfæri og æfingu í að nota þau, en að það sé svo undir hverjum og einum komið hvernig þau eru nýtt í raun.

Þegar Sigurður horfir á námið í dag sér hann að margt hefur breyst. Á sínum tíma var stafræna byltingin rétt að hefjast og nettengdar fartölvur nýtt verkfæri. Nú eru það forrit, öpp og ekki síst gervigreind sem hann segir vera „stærsta stökkið í framförum.“

Áhrif MBA-námsins á hans eigin starfsferil hafa verið mjög jákvæð. Námið hafi opnað mörg tækifæri og fyrst og fremst styrkt hann sem einstakling og stjórnanda.

Samtal á milli kynslóða

Reynsla feðganna af náminu hefur verið mjög jákvæð. Garðar talar um að hafa kynnst frábærum hópi, bæði samnemenda og kennara. Sigurður segir það hafa verið sérstaklega skemmtilegt að fá nú að fylgjast með syninum fara í gegnum sama nám og rifja upp sín námsár.

Þeir ræða oft saman um verkefni og námskeið. Sigurður spyrji gjarnan hvað sé á döfinni og Garðar segir að þeir spegli hvorn annan reglulega í þeim námskeiðum sem hann er að taka. Þeir bera saman hvernig námskeið voru áður kennd og hvernig þau séu kennd í dag. Sigurður hefur sérstaklega áhuga á nýjum námskeiðunum, t.d. Gervigreind og leiðtoginn í umsjón Hafsteins Einarssonar, dósents.

Feðgunum þökkum við kærlega fyrir gott spjall og óskum þeim góðra stunda á golfvellinum þegar MBA-gráðan verður í höfn.

Feðgar
Share