Velkomin í MBA-nám við Háskóla Íslands | MBA-nám í Háskóla Íslands

Velkomin í MBA-nám við Háskóla Íslands

Háskóli Íslands leggur mikla áherslu á öflug tengsl við íslenskt samfélag og atvinnulíf og leitast þannig við að stuðla að virkri uppbyggingu atvinnulífsins með nýsköpun þekkingar. MBA-nám við Háskóla Íslands er hagnýtt meistaranám þar sem nemendur takast á við raunhæf verkefni, hljóta þjálfun á sviði viðskipta og rekstrar og efla persónulega færni sína. Með MBA-náminu er lögð áhersla á að nemendur öðlist þekkingu og færni í að leiða flókin verkefni og undirbúning til að takast á við stjórnunarstörf af margvíslegum toga og eru tengsl MBA-námsins við íslenskt atvinnulíf margþætt. Mikil þörf er fyrir fólk með menntun sem þessa í íslensku atvinnulífi og veitir MBA-gráða frá Háskóla Íslands afbragðs undirbúning til að mæta krefjandi verkefnum á sviði nýsköpunar og stjórnunar, bæði í einkarekstri og hjá hinu opinbera.

 

Öruggur gæðastimpill

Háskóli Íslands hefur brautskráð rúmlega 400 MBA-nemendur frá árinu 2002. Skólinn vinnur ávallt að því að bæta starf sitt og gerir miklar kröfur til nemenda sinna, kennara, stjórnenda og annars starfsfólks. Prófgráður frá Háskóla Íslands eru gæðavottaðar og njóta virðingar um allan heim. MBA-námið hefur nýlega farið í gegnum alþjóðlegt vottunarferli og hlaut vottun frá Association of MBA‘s (AMBA) 2014 og framhaldsvottun 2017.

Öflugur háskóli í fremstu röð

Í heiminum starfa nú um 17.000 háskólar. Háskóli Íslands er í hópi 300 bestu háskóla heims samkvæmt matslista Times Higher Education World University Rankings og hefur verið á listanum frá árinu 2011. Samkvæmt þessu er Háskóli Íslands meðal 2% efstu háskóla í heiminum. Þessi röðun er gríðarleg viðurkenning fyrir kennslu- og vísindastarf í skólanum. Háskóli Íslands kostar kapps að viðhalda þessum árangri og notast við alþjóðlega viðurkennda gæðamælikvarða og úttektir eins og úttektina frá AMBA.

Kær kveðja,

Jón Atli Benediktsson
rektor Háskóla Íslands

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is