Vaxtartækifæri | MBA-nám í Háskóla Íslands

Vaxtartækifæri

Kvikt umhverfi fyrirtækja kallar á sveigjanleika í rekstri. Tækni, tíska og alþjóðleg viðmið þróast með áður óþekktum hraða og á opnum markaði þarf að taka ákvarðanir jafnt og þétt um að verjast, halda fengnum hlut eða sækja fram. Þá skiptir miklu máli að búa við trausta gagnaöflun, geta hratt endurmetið og mótað nýja stefnu og sett fram trúverðuga áætlun, enda er traust mat á stöðu og þróun mála grunnur nýhugsunar. 

Námskeið sem falla undir vaxtartækifæri eiga það m.a. sameiginlegt að fjalla á einn eða annan hátt um nýja valkosti í rekstri jafnt á alþjóðlegum- sem heimamarkaði. Margir stjórnendur láta innsæi stýra för við mat á vaxtartækifærum, en í þessum námskeiðum er lögð áhersla á að tengja innsæi við frjóa hugsun og góða alhliða gagnagreiningu. Umfram allt þarf að þekkja og skilja þarfir og langanir viðskiptavina, ekki síst á framandi mörkuðum og átta sig á því hvernig best sé að byggja upp samskipti við mismunandi menningarheima og hrinda hugmyndum í framkvæmd.

Nemendur láta gjarnan til sín taka í þessum námskeiðum með því að miðla af margháttaðri reynslu sinni í umræðum um verkefni og raundæmi (cases). Undanfarin ár hafa MBA-nemendur á seinna ári farið í námsferð til Georgetown University í Washington og er sú ferð liður í námskeiðinu Alþjóðleg stjórnun. 

Kastljósinu er sérstaklega beint að því hvernig nýta má viðskiptatækifæri í nær- og fjærumhverfinu með góðri stefnumótun, markaðsstarfi, almennum umbótum, þróun eða innleiðingu nýrrar tækni og smíði viðskiptamódela.

Runólfur Smári Steinþórsson prófessor leiðir vinnu við að samræma námskeið í þessum flokki. Runólfur kennir námskeiðið; Stefnumótun og samkeppnishæfni þar sem rýnt er í stöðu dagsins og framtíðina frá ótrúlegustu sjónarhornum.

Námskeiðin sem tilheyra þessum flokki eru:

  • Stefnumótun og samkeppnishæfni
  • Markaðsstarf og árangur
  • Frumkvöðlar og nýsköpun
  • Alþjóðaviðskipti (kennt á ensku)
  • Alþjóðleg stjórnun (kennt á ensku)
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is