Umsagnir nemenda | MBA-nám í Háskóla Íslands

Umsagnir nemenda

ÚTSKRIFTARHÓPUR 2016

Katrín M. GuðjónsdóttirGuðrún Eva Gunnarsdóttir, fjármálastjóri Haga:

„MBA nám í Háskóla Íslands er mjög hagnýtt og gefur góða heildaryfirsýn yfir viðskiptalífið. Fræðin eru kennd og nýtt á þann hátt að þau gagnast í raunveruleikanum, þá aðallega með raunhæfum einstaklings- og hópverkefnum. Kennd eru flest öll þau fög sem skipta máli fyrir stjórnendur nútímans og veitir námið manni því mörg ný verkfæri í verkfærakistuna. Námið er frábær endurmenntun fyrir alla stjórnendur og þá sem hafa áhuga á stjórnunarstöðum í framtíðinni. Við námið starfa góðir og reynslumiklir kennarar og er því hægt að sækja í ótæmandi viskubrunn þeirra. Auk þess gera gestafyrirlesarar og heimsóknir í fyrirtæki nemendum kleift að fá innsýn í viðskiptalífið frá öðru sjónarhorni. MBA námið er í raun eins og þjálfunarbúðir þar sem nemendur eru undirbúnir undir starf stjórnandans í síbreytilegu umhverfi nútímans. Að lokum ber að nefna tengslanetið og þann frábæra hóp samnemenda sem gefa náminu gildi. Ég mæli án efa með MBA námi við Háskóla Íslands.“ 

ÚTSKRIFTARHÓPUR 2015

Katrín M. GuðjónsdóttirKatrín M. Guðjónsdóttir, markaðsstjóri Skeljungs:

„MBA-námið hefur gefið mér skarpari sýn á það sem raunverulega skiptir máli og aukinn kraft til að takast á við krefjandi verkefni sem veita mér og fyrirtækinu gott samkeppnisforskot. Námið hefur stækkað sjóndeildarhringinn og gefið mér dýpri og betri sýn á þá eiginleika sem góðir stjórnendur þurfa að hafa til að ná árangri.“ 

ÚTSKRIFTARHÓPUR 2014

Katrín M. GuðjónsdóttirMagnús Ólafur Kristjánsson, verkefnastjóri KPMG:

„Í MBA náminu í Háskóla Íslands felast margvísleg tækifæri til að takast á við nýjar áskoranir, bæta við fræðilega þekkingu, þróa persónulega færni, kynnast nýju fólki og efla tengslanet. Námið sem hefur fengið alþjóðlega gæðavottun, er bæði fjölbreytt og hagnýtt. Það hefur breiða skírskotun og gefur góða innsýn í fjölbreytt viðfangsefni stjórnenda fyrirtækja og skipulagsheilda. Í náminu gefst einstakt tækifæri til að nýta verkefnavinnu, undir stjórn frábærra kennara, til raunhæfra og hagnýtra verkefna. MBA nám er vissulega fjárfesting en ef rétt er spilað úr þeim tækifærum sem námið felur í sér er það fjárfesting sem getur gefið góðan arð í margvíslegum skilningi. Það er svo undir hverjum og einum komið að nýta tækifærið og tryggja „hámarksarðsemi“ fjárfestingarinnar. Ég get mælt með MBA náminu við Háskóla Íslands sem reyndist á allan hátt farsælt ferðalag fyrir mig.“ 

ÚTSKRIFTARHÓPUR 2013

Sigþór Kristinn SkúlasonSigþór Kristinn Skúlason, framkvæmdastjóri Airport Associates og Express ehf:

„MBA-námið er allt í senn krefjandi, skemmtilegt og gagnlegt. Á meðan á náminu stóð fékk ég ótal tækifæri til þess að vinna ítarlega að ýmsum raunverkefnum fyrir þau fyrirtæki sem ég starfa fyrir. Námið gengur mikið út á hópavinnu og geri ég mér nú mun betur grein fyrir því hversu gagnlegt og áhrifaríkt það getur verið að raða saman einstaklingum með ólíkan bakgrunn, menntun og reynslu til að vinna saman að tilteknum verkefnum. Við nemendur fengum mjög góðan aðgang að frábærum hóp kennara auk gestafyrirlesara sem allir voru boðnir og búnir til þess að leiðbeina okkur og fræða. Nemendur læra mikið af hvor öðrum, vinabönd myndast og tengslanet stækkar. Ég mæli hiklaust með MBA-námi í Háskóla Íslands.“ 

ÚTSKRIFTARHÓPUR 2012

Halldór HalldórssonHalldór Halldórsson, oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn Reykjavíkur og formaður sambands íslenskra sveitarfélaga:

„Fyrir einstakling eins og mig sem hefur unnið sem stjórnandi bæði í einka- og opinbera geiranum er MBA-námið bæði endurnýjun og viðbót. Það er endurnýjun vegna þess að það er hollt að spegla fræðin í uppsafnaðri reynslu. Námið er einnig viðbót vegna þess að maður kemur inn í það með verkfæratöskuna úr atvinnulífinu. Nýjar aðferðir bætast við jafnt og þétt, þannig að maður verður að skipta um og fá sér stærri. Við nemendurnir lærum mikið hver af öðrum því menntun og reynsla skólafélaganna er mjög fjölbreytt. Tengslanet okkar stækkar í náminu og mun nýtast okkur áfram.“

 

Jón Ólafur HalldórssonJón Ólafur Halldórsson, forstjóri Olís:

„Ég hef unnið sem stjórnandi í íslensku atvinnulífi í meira en 20 ár. Ég sótti framhaldsmenntun mína erlendis, m.a. við einn af virtustu viðskiptaháskólum í Evrópu. Í MBA-náminu í Háskóla Íslands er lögð áhersla á vönduð vinnubrögð, framúrskarandi fyrirlestra og öll aðstaða fyrir nemendur jafnast á við það besta sem ég hef séð erlendis.“

 

 

 

 

ÚTSKRIFTARHÓPUR 2011

Sigurjóna SverrisdóttirSigurjóna Sverrisdóttir, verkefnastjóri, Meet in Reykjavík:

„Þennan tíma sem ég hef verið í MBA-náminu hefur mér opnast nýr heimur. Ég kem úr listaheiminum og hef því annan grunn en þeir sem koma t.d. úr viðskiptalífinu. Á nokkrum mánuðum hefur heimssýn mín breyst og sjóndieildarhringurinn víkkað, mörgum spurningum fortíðar hefur verið svarað og enn fleiri hafa vaknað. Það hefur verið frábært að finna þann metnað sem kennararnir setja í undirbúning og kennslu. Við lærum að nýta okkur öll nýjustu tækin og aðferðir til þess að verða betri stjórnendur. Það sem ég kveið mest fyrir var hópvinnan, en hún geriri námið skemmtilegt enda vinnum við úr því sem við höfum lært í hópunum. Þetta er krefjandi nám, krefst ákveðinna fórna og mikils sjálfsaga, en ég tel mig uppskera ríkulega.“

ÚTSKRIFTARHÓPUR 2010

Margrét HauksdóttirMargrét Hauksdóttir, lögfræðingur, forstjóri Þjóðskrár Íslands:

„MBA-námið var áskorun sem gerði margvíslegar kröfur til mín. Það veitti mér nýja sýn, styrkti mig, jók þekkingu mína til muna og ýtti mér út í að leysa margvísleg ögrandi verekfni. Það krafðist skipulagningar og úthalds og veitti mér innsýn í sjálfa mig sem við öll höfum svo gott af. Ég hef tekist á við ný verkefni í starfi mínu sem ég hefði aldrei gert nema fyrir tilstilli námsins. Námið hefur einnig skapað mér margvísleg tengsl og ber þar fyrst að nefna fjölbreyttan og öflugan hóp samnemenda minna, frábæran hóp kennara sem leggja sig fram um að draga fram styrkleika nemenda og kenna þeim ný vinnubrögð. Auk þess hef ég kynnst framúrskarandi fólki atvinnulífsins í fyrirtækjaheimsóknum hér innanlands sem og í námsferðum erlendis.“

Örn OrrasonÖrn Orrason:

„Ég ákvað að fara í MBA-nám eftir að hafa verið á vinnumarkaði í hátt í 20 ár. Ég er menntaður verkfræðingur, hafði öðlast víðtæka reynslu í mínum störfum og hef starfað sem stjórnandi síðustu árin í mjög áhugaverðu uppbyggingarverkefni. Síðustu þrjú árin hef ég starfað sem ráðgjafi í ýmsum verkefnum.

Í gegnum árin hefur reynt á margar hliðar þekkingar sem ekki var kennd í verkfræði, einkum hvað varðar fjármál og stjórnun. Margt lærist með reynslunni en í mér blundaði löngun til að mennta mig betur á þessum sviðum og jafnframt gera eitthvað fyrir sjálfan mig, enda má segja að starfsævin sé hálfnuð. Ég valdi að fara í MBA í HÍ eftir nánari skoðun. Tíminn hentaði mér og aðstaðan frábær. Námið hefur reynst vel og sumt hef ég þegar nýtt mér í starfi mínu. kennarar eru metnaðarfullir og leggja sig allir fram. Ég mæli með MBA-námi við HÍ.“

ÚTSKRIFTARHÓPUR 2009

Ásgeir EiríkssonÁsgeir Eiríksson, bæjarstjóri sveitarfélagsins Voga:

„Það er stór ákvörðun að fjárfesta í námi á meistarastigi og leggja stund á það samhliða vinnu eftir liðlega 25 ára þátttöku á vinnumarkaðnum. Í MBA náminu njótum við þeirra forrétinda að fá leiðsöng og kennslu hjá góðum kennurum ásamt mörgum færum sérfræðingum úr þjóðlífinu. Námið er vel skipulagt, það veitir góða innsýn í viðskiptalífið, það eflir leiðtogafærnina og hæfni einstaklingsins sem stjórnanda. Námið hefur fyllilega staðist væntingar mínar og ég er því ánægður með ákvörðunina.

Nemendahópurinn samanstendur af framúrskarandi einstaklingum með fjölbreyttan bakgrunn og hefur náð að tengjast órjúfanlegum böndum sem byggja á trausti, virðingu, vináttu og samheldni.

Einar HannessonEinar Hannesson, útibússtjóri Landsbankans í Reykjanesbæ:

„þegar ég hóf MBa-nám við HÍ haustið 2007, vakti fyrir mér að auka og dýpka þá rekstrarþekkingu sem ég hafði áður öðlast. tveimur árum fyrr hafði ég tekið við ábyrgðarmiklu starfi sem forstöðumaður yfir stóru rekstrarsviði innan íslensks fyrirtækis. námið stóðst allar mínar væntingar, hvort sem horft er til rekstrar-, fjármála-, mannauðs- eða stjórnunarfræða.

Námið hefur án nokkurs vafa aukið færni mína við úrlausn praktískra viðfangsefna og eflt sjálfstraust mitt til ákvarðana- töku. umfram allt voru árin tvö afar skemmtilegur tími með metnaðarfullum og reynslumiklum hópi nemenda, kennara og starfsliðs.“

Jón Birgir GunnarssonJón Birgir Gunnarsson, framkvæmdarstjóri fiskiðnaðarsviðs Marels:

„Þrátt fyrir að hafa starfað í alþjóðlegu umhverfi í meira en áratug kynntist ég nýjum hliðum á alþjóðlegu viðskiptaumhverfi í gegnum verkefna-vinnu, í fyrirlestrum og frá samnemendum í MBA-náminu. Þessi nýja þekking nýttist mér strax í starfi og gerir það á hverjum degi. Eitt það besta við þetta nám er að kennarar, gestir og samnemendur búa yfir gríðarmikilli reynslu og oftar en ekki sjá þau mismunandi sjónarhorn og lausnir..“

ÚTSKRIFTARHÓPUR 2008

Brynhildur GeorgsdóttirBrynhildur Georgsdóttir, lögfræðingur, útibússtjóri vesturbæjarútibús Arion banka:

„Ég er lögfræðingur og hafði lengi unnið sem stjórnandi þegar ég ákvað að fara í MBA námið, fyrst og fremst til að bæta mig í fjármálum. Ég valdi Háskóla Íslands því ég treysti því að þar væru gerðar miklar kröfur til nemenda og að ég fengi aðgang að færustu sérfræðingum landsins á hverju sviði. Í fyrstu leyst mér illa á þá miklu áherslu sem er lögð á hópastarf en þegar ég lít til baka var hópastarfið einn af mikilvægum þáttum námsins. Einna dýrmætast er þó það sem ég hef lært um sjálfa mig í gegnum hópastarfið og hefur gert mér kleift að skerpa styrkleikana og slípa veikleikana. Rúsínan í pylsuendanum er hópurinn sem myndar ekki bara tengslanet heldur skemmtilegan félagsskap sem verður gaman að rækta í framtíðinni.

ÚTSKRIFTARHÓPUR 2007

Elísabet Sveinsdóttir

Elísabet Sveinsdóttir, forstöðumaður markaðssviðs Advania:

„Hópavinna spilar stórt hlutverk í MBA námi í Háskóla Íslands. Það er ótrúlegur kraftur sem skapast í öflugum hópi og mismunandi reynsla fólks nýtist öllum. Samstaðan og stemningin getur skipt sköpum og hjálpað til við að gera námið auðveldara, árangursríkara og skemmtilegra. Tengsl meðal nemenda að námi loknu er það sem stendur upp úr og er rúsínan í pylsuendanum".

ÚTSKRIFTARHÓPUR 2006

Arnar JenssonArnar Jensson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá ríkis-lögreglustjóra:

„Eftir tæp 30 ár sem stjórnandi í lögreglunni langaði mig til að takast á við ný verkefni, innan eða utan lögreglunnar. Til þess að eiga möguleika á eftirsóknarverðum og spennandi kostum þurfti ég að bæta við mig framhaldsmenntun á háskólastigi. Nákvæm skoðun og ráðleggingar góðra manna leiddu til þess að ég sótti um MBA-nám við Háskóla Íslands og sé ekki eftir því.

Námið er mjög metnaðarfullt og afar krefjandi en um leið hagnýtt og hefur sterk tengsl við atvinnulífið, bæði einkarekstur og opinbera starfsemi. Mikil áhersla er lögð á verkefnavinnu þar sem reynir á hagnýtan hátt á þau fræði sem verið er að fjalla um á hverjum tíma. Námið hefur þegar nýst mér á flestum sviðum míns núverandi starfs.

MBA gráða frá Háskóla Íslands hefur "hækkað hlutabréfin í mér" verulega og ég á möguleika á störfum innan lögreglunnar og opinbera kerfisins sem ég hafði alls ekki áður. Mér hafa einnig opnast ýmsar nýjar dyr á spennandi störfum við erlendar löggæslu- og öryggisstofnanir sem voru lokaðar fram að þessu. Ég get auðvitað einnig söðlað um og hafið starfsferil á nýjum vettvangi á vinnumarkaðinum. Ég er orðinn samkeppnishæfari um eftirsóknarverð störf. Þetta er sérlega góð tilfinning sem veitir mér aukið sjálfstraust i núverandi starfi og frelsi til að færa mig til, kjósi ég það sjálfur".

Björk PálsdóttirBjörk Pálsdóttir forstöðumaður hjálpartækja-miðstöðvar Tryggingastofnunar:

„Ég lauk námi í iðjuþjálfun 1980 í Danmörku og vann þar við endurhæfingu í nokkur ár og einnig hér heima áður en mér bauðst það starf að byggja upp hjálpartækjamiðstöð Tryggingastofnunar. Ég hafði starfað við stjórnun og uppbyggingu þeirrar starfsemi í um áratug þegar ég sótti þriggja anna nám í stjórnun og rekstri í heilbrigðisþjónustu árin 1996-1998 við Endurmenntunarstofnun HÍ. Eftir það nám var ég staðráðin í að mennta mig enn frekar á sviði stjórnunar til þess að gera mér kleift að ná markmiðum mínum í starfi betur. Ég vildi stunda námið með starfi og skoðaði ýmsar leiðir. Ég sá strax að MBA námið við HÍ bauð upp á það sem ég var að leita að. Í náminu er lögð áhersla á fræðilega þekkingu og hagnýtingu hennar. Ég hef öðlast nýja þekkingu og færni til að takast á við ýmsa þætti stjórnunar og rekstrar og til að fást við ný tækifæri og verkefni í starfi við þær síbreytilegu aðstæður sem við búum við. Með þessu námi hef ég öðlast breiðari sýn og litið út fyrir mitt eigið fagsvið. Þetta hefur verið lærdómsríkt, gluggi hefur opnast inn í nýjan heim þar sem sjónum er beint að markmiðssetningu, stefnumörkun og forystu. Ég hef öðlast aukinn skilning og færni í hvernig laða megi það besta fram og vinna sameiginlega að heildarmarkmiðum, ekki bara að gera hlutina rétt, heldur gera réttu hlutina. Í náminu kynntist ég frábæru fólki, bæði nemendum og kennurum, sem mun nýtast áfram. MBA námið hefur styrkt mig og opnað fyrir mér nýjar leiðir".

Margrét BóasdóttirMargrét Bóasdóttir, söngkona og kennari við Söngskólann í Reykjavík:

„Það var mikil áskorun að fara í MBA nám og ég valdi Háskóla Íslands bæði vegna kennslufyrirkomulagsins og þeirrar áherslu sem lögð er á tengsl við íslenskt atvinnulíf.
Ég útskrifaðist á síðustu öld sem tónmenntarkennari, söngkennari og söngkona frá íslenskum tónlistarskólum og stundaði síðan framhaldsnám í einsöng í tveimur þýskum tónlistarháskólum ásamt því að syngja og kenna.
Ég hef stjórnað ýmsu á undanförnum áratugum, en aðallega kórum, og því var mér það umhugsunarefni hvort MBA nám væri hentugt fyrir tónlistarfólk. En stefnumótunarvinna fyrir tónlistarlífið á Íslandi, sem ég tók þátt í fyrir þremur árum, kveikti löngun til að kynnast meiru og því ákvað ég að taka eigin áskorun.

Námið var vissulega mjög krefjandi bæði í tíma og atorku og fræðin ný fyrir mér. En samsvörunin var til staðar og sérstaklega vil ég nefna stefnumótun, mannauðsstjórnun og stjórnun þekkingar og breytinga sem þau fög sem allt lista- og menningarlíf þarf jafnmikið á að halda og aðrar atvinnugreinar. Rekstrartengdu fögin reyndust mér einnig krefjandi og góður skóli. Kennarar, gestafyrirlesarar og fyrirtækjaheimsóknir m.a. til Kína sáu til þess að námið var afar lifandi og fjölbreytt.

Síðast en ekki síst eru það samnemendurnir, sem gera námið einstakt. Hópvinnan og sú viðbótarþekking sem þar kemur fram ásamt vináttu, hjálpsemi og skemmtilegheitum er það sem ég mun bæta í fjársjóðinn og er strax farin að sakna þessa alls, í bland við feginleikann við námlok.
Námið hefur nú þegar nýst mér bæði í starfi og sjálfsstyrkingu. Ég hlakka til að takast á við ný verkefni með þekkingu MBA námsins og mun örugglega sjá til þess að kennslubækurnar safni ekki bara í sig ryki heldur prýði náttborðið við og við".

ÚTSKRIFTARHÓPUR 2004

Guðrún Pálsdóttir, lyfjafræðingur, eigandi Urðarapóteks:

„Í gegnum allt námið unnum við að stórum raunhæfum verkefnum sem tengdust íslenskum fyrirtækjum. Viðfangsefnin voru flest mjög ögrandi. Krafa var gerð um tilheyrandi tilvísanir í námsefnið og vinna þurfti markvisst og skipulega með öðrum, gjarnan undir miklu álagi. Oft þurftum við að glíma við verkefni sem virtust nær óleysanleg á þeim stutta tíma sem gefinn var. Við þær aðstæður gildir að virkja hugmyndaflugið og leggja allt undir. Námið í heild veitir innsýn í og hvetur nemendur til frumkvöðlahugsunar og nýsköpunar og ég öðlaðist þekkingu á rekstri og stjórnun fyrirtækja. Það undirbjó mig vel undir það að opna mitt eigið fyrirtæki og gaf mér kjark til þess að láta það verða að veruleika.“

Guðlaug Rakel Guðjónsdóttir, framkvæmdastjóri bráðasviðs Landspítala:

„Nemendahópurinn samanstóð af sterkum einstaklingum. Við vorum að kljást við ólíka hluti, lærðum mikið hvert af öðru og studdum hvert annað. Það kom sér vel í mínu tilviki en samhliða náminu gegndi ég stjórnunarhlutverki í krefjandi umhverfi. Kennararnir lögðu mikið á sig til að gera námið í fremstu röð. Vissulega voru gerðar miklar kröfur til okkar nemendanna eins og vera ber í námi sem þessu þegar fólk er að fjárfesta í sjálfu sér. Þá vill maður vera í einum af fremstu háskólum heims. Eitt af því sem ég nýtti mér úr náminu var innleiðing á stefnumiðuðu árangursmati á Landspítala og ég vil meina að það hafi verið grunnurinn að því sem við erum að vinna með í dag og köllum Starfsáætlun Landspítala..“

 

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is