Persónuleg færni | MBA-nám í Háskóla Íslands

Persónuleg færni

MBA stigiÖll námskeið sem boðið er upp á taka mið af nýjustu áherslum í viðkomandi fagi. Í hverju þeirra er nemendum boðið upp á að efla persónulega færni og þróa leiðtogahæfileika sína m.a. með:

-Umræðum í kennslustundum við kennara, samnemendur og gestafyrirlesara.

-Hópavinnu þar sem kryfja þarf ólík viðfangsefni og leggja fram tillögur um ákvarðanir sem þarf að taka og finna sameiginlega niðurstöðu.

-Vali á verkefnum sem tengjast áhuga eða hagsmunum nemenda og samskiptum við aðila í atvinnulífinu sem tengjast náminu.

-Þátttöku í umræðum um dæmisögur (e. cases) þar sem viðfangsefni eru greind, t.d. með tilliti til orsakasamhengis. Brugðist er við andstæðum rökum sem upp kunna að koma þegar fundin eru ný sjónarhorn og lausnir.

 

Þróa hæfileika og hæfni

Auk námskeiðanna sem í boði eru þróa nemendur hæfileika sína og hæfni t.d. með:

-Þátttöku í vinnufundum og atburðum sem boðið er upp á í tengslum við námið.

-Persónulegu mati og samtölum við stjórnendaráðgjafa.

-Ígrundun eigin framlags og sjálfssýnar á ólíkum sviðum.

 

Styrkja frumkvæði og færni nemenda

Rauði þráðurinn er að styrkja frumkvæði og færni nemenda á öllum sviðum námsins svo þeir geti betur nýtt þekkingu sína. Bakgrunnur nemenda er ólíkur og mikið er lagt upp úr því að hver og einn nýti sína reynslu sem best, geti lagt mat á aðstæður hverju sinni og uppgötvi í leiðinni nýja persónulega eiginleika. Í leiðtogastarfi reynir ekki síst á skilvirka ákvarðanatöku með tilheyrandi greiningu gagna og mati valkosta. Í MBA-náminu er sérstaklega haft að leiðarljósi að nemendur efli persónulega færni og þrói atvinnuhæfni sína.

 

Fjölbreytt stjórnendanám

MBA-nám er fjölbreytt stjórnendanám sem ætlað er einstaklingum sem hafa reynslu af stjórnunarstörfum. Á námsleiðinni eru margskonar krefjandi úrlausnarefni, bæði persónuleg og fagleg; t.d. að geta tjáð sig með afgerandi hætti, taka af skarið, sýna frumkvæði og eldmóð, ganga á móti straumnum, verja erfiðar ákvarðanir, klára verkefni undir tímapressu og nálgast málin frá siðferðislegu sjónarhorni.

 

Stjórnunarhlutverkið krufið

Nútíma stjórnendur leita eftir skoðunum starfsfólks og þátttöku í hópastarfi og ákvörðunartöku af ýmsu tagi. Verkefni þeirra ganga gjarnan þvert á deildir/svið fyrirtækjanna og fyrir vikið reynir mjög á samstarfshæfileika stjórnenda. Allir sem sinnt hafa stjórnunarhlutverkum vita að það getur gefið hressilega á bátinn og getur þurft mikla þrautsegju til að koma fleyinu heilu í höfn. Í MBA-náminu er stjórnunarhlutverkið krufið út frá mörgum sjónarhornum ekki síst með tilliti til þess hvernig stjórnendur geta náð árangri með því að vinna með öðrum, í gegnum aðra og með sjálfum sér.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is