Úr kennslu í Harvard í Háskóla Íslands | MBA-nám í Háskóla Íslands

Úr kennslu í Harvard í Háskóla Íslands

"Sveigjanleiki er núna meginstefið í frumkvöðlafræði og nýsköpun. Áður var mesta áherslan á viðskiptaáætlanir en núna er meira byggt á viðskiptalíkönum sem hægt er að sveigja til og laga að

"Meginstefið í frumkvöðlafræði er núna áhersla á sveigjanleika viðskiptalíkana til að mæta síbreytilegum þörfum viðskiptavina."

síbreytilegum þörfum viðskiptavina. Viðskiptaáætlanir lýsa yfirleitt bara einni framtíð," segir Magnús Þór Torfason, lektor við viðskiptafræðideild Háskóla Íslands og kennari í frumkvöðlafræði í MBA í HÍ. Hann stýrir ennfremur meistaranámi í nýsköpun og viðskiptaþróun við HÍ og situr í stjórn fjárfestingarsjóðsins Frumtaks sem fjárfestir í sprota- og nýsköpunarfyrirtækjum.

Sveigjanleiki kemur raunar við sögu í viðskiptalíkani Magnúsar Þórs sjálfs. Þörfin fyrir að búa á Íslandi kallaði og þá reyndi á sveigjanleikann hjá honum; að segja upp góðri stöðu sem lektor við Harvard Business School og byrja að kenna við sinn gamla skóla; Háskóla Íslands.

ÍSLENSKA FJALLALOFTIÐ

"Eigum við ekki að segja íslenska fjallaloftið hafi ráðið mestu um að ég sneri heim," segir Magnús brosandi um

"Facebook er dæmi um fyrirtæki sem hefur haldið áfram að beita sprota-aðferðafræðinni þótt það sé orðið alþjóðlegur risi. Það hefur sprotahugsunina í genaformúlu sinni."

vistaskiptin úr Harvard í HÍ. "Ég var í ársleyfi frá Harvard og bauðst að takast á við þróun nýsköpunarnáms við Háskóla Íslands. Við fluttum heim og eftir nokkra mánuði þurftum við að taka ákvörðun; ætluðum við að setjast að á Íslandi eða búa áfram í Bandaríkjunum og verða smám saman Bandaríkjamenn? Við sögðum sem svo að ef við yrðum áfram úti og börnin færu í framhaldsskóla þar þá kæmum við ekki heim aftur. Ísland varð fyrir valinu."

Magnús kenndi tvo kúrsa í frumkvöðlafræði við MBA-námið í Harvard á árunum 2010 til 2013 auk þess sem hann leiðbeindi nemendum í hagnýtum sprotaverkefnum. "Mikil áhersla er lögð á hópavinnu og dæmisögur (case study) í kennslunni í Harvard. Þar geta nemendur sömuleiðis unnið að eigin raunhæfum sprotaverkefnum - líkt og margir gera í MBA-náminu í HÍ."

MIKILL METNAÐUR Í MBA Í HÍ OG HARVARD

Hann segir að áhugi, kraftur og metnaður einkenni bæði MBA-námið í HÍ og Harvard. Munurinn felist aðallega í því að aðgangur að rannsóknum og fjármagni sé meiri í Harvard og tengslin við atvinnulífið sterkari og byggist á gömlum merg. Nemendur séu fleiri og yngri - og fyrir vikið með minni reynslu og ekki eins breiðan bakgrunn og MBA-nemar hér heima.

"MBA-kennsla í Bandaríkjunum gengur í miklum mæli út á reynslu- og dæmisögur úr rekstri fyrirtækja og það form er allt að því

trúaratriði í mörgum bandarískum háskólum. Í Harvard er mikil gróska í frumkvöðlafræðinni og góð tenging við aðra þekkta háskóla á

"Í MBA-náminu fer ég yfir fjölmargar dæmisögur um vel heppnuð sprotafyrirtæki og hvað hafi fellt gróin fyrirtæki, þ.e. hvað hafi orðið til þess að þau sofnuðu á verðinum."

svæðinu, eins og MIT og Boston University, sem og við atvinnulífið. Þarna er líka mikil nálægð við áhugasama sprotafjárfesta sem eru á útkikkinu eftir tækifærum."

Að sögn Magnúsar er námið í Háskóla Íslands sambland af hefðbundnu MBA-námi og svonefndu Executive MBA-námi sem þekkt er erlendis og byggist á nokkurra vikna lotum. "MBA-námið í Háskóla Íslands er vottað af alþjóðlegum samtökum MBA-háskóla, AMBA, og það er mikil viðurkenning fyrir námið hér heima."

NÁM SEM TENGIR DEILDIR SAMAN

Í meistaranámi HÍ í nýsköpun og viðskiptaþróun er athyglisvert samstarf viðskipta- og raunvísindadeildanna. "Eitt af því sem ég sá úti í Harvard var að það urðu til mjög fín og frumleg fyrirtæki út úr samstarfi nemenda í Harvard við nemendur í MIT og öðrum þekktum skólum á svæðinu. Þess vegna lagði ég upp þá námsleið í meistaranáminu í HÍ að tengja nemendur í mismunandi deildum háskólans saman. Núna taka nemendur í viðskiptafræði, verkfræði, matvælafræði og læknisfræði kúrsa saman í meistaranáminu."

DÆMISÖGURNAR HEILLA

Magnús segir að í MBA- og meistaranáminu fari hann yfir fjölmargar dæmisögur um vel heppnuð sprotafyrirtæki og hvað hafi fellt gróin fyrirtæki - hvað hafi orðið til þess að þau sofnuðu á verðinum í vöruþróun.

"Þá förum við sömuleiðis yfir mörg praktísk atriði, eins og samskipti frumkvöðla, fjárfestingar, fjármögnun, verðmat sprotafyrirtækja, sprota- og fjárfestingaumhverfið á Íslandi, þróun og nýjungar í tækniheiminum og t.d. hvernig innlendir fjárfestar nálgast viðskiptahugmyndir í samanburði við erlenda."

FRUMKVÖÐLAFRÆÐIN UNG KENNSLUGREIN

Að sögn Magnúsar er frumkvöðlafræðin frekar ung námsgrein í háskólum og kennd sem sérstök aðferðafræði. "Núna eru viðskiptalíkön

"Í Harvard er mikil gróska í frumkvöðlafræðinni og góð tenging við aðra þekkta háskóla á svæðinu, eins og MIT og Boston University, sem og við atvinnulífið."

í brennidepli og sérstök áhersla lögð á að þau séu sveigjanleg. Fyrirtæki þurfa strax í upphafi að þroska með sér hæfileikann til að laga sig að þeirri reynslu sem fæst í samskiptum við viðskiptavini og fylgjast með síbreytilegum þörfum þeirra.

Áður voru fjárfestar fremur neikvæðir ef frumkvöðlar lögðu ekki fram nákvæma viðskiptaáætlun og hvað þá ef þeir viðruðu einhverja óvissu um eftirspurn og stærð markaðarins. Nú vilja fjárfestar sjá að frumkvöðlarnir séu sveigjanlegir; séu á tánum og tilbúnir að læra og breyta. Góð hugmynd getur á mjög skömmum tíma leitað í farveg sem enginn sá fyrir."

Brennipunkturinn í viðræðum frumkvöðla og fjárfesta er oftast ferlið fræga þegar hugmynd verður að veruleika; þ.e. færist yfir í fjöldaframleiðslu og sölu. Á þessum tímapunkti breytast sprotafyrirtæki líka oftast yfir í venjuleg fyrirtæki og auðvelt er að festast í því fari.


GRÓIN FYRIRTÆKI MEÐ SPROTAHUGSUN

"Það er mikil umræða í frumkvöðlafræðinni um gróin fyrirtæki sem nýta sér aðferðir ferskra frumkvöðla sem gera hlutina öðruvísi, innleiða stöðugt nýjungar með rannsóknum og þróun - og reyna þannig að vera á undan keppinautum og nýjum frumkvöðlum. Þetta er umræða sem gengur út á nýja sprota af gömlum meiði."

"Við fluttum heim og eftir nokkra mánuði þurftum við að taka ákvörðun; ætluðum við að setjast að á Íslandi eða búa áfram í Bandaríkjunum og verða smám saman Bandaríkjamenn?"

Magnús nefnir af handahófi bandaríska bókhaldsfyrirtækið Intuit sem dæmi um rótgróið fyrirtæki sem stöðugt komi með nýjungar og sé yfirleitt skrefinu á undan keppinautum sínum með bókhaldslausnir. Á meðal bókhaldskerfa þess er skattahugbúnaðurinn TurboTax sem slegið hefur í gegn vestanhafs og er mikið notaður.

"Intuit gefur starfsmönnum frelsi til að byrja á nýjum verkefnum og þróa þau. Það er með hvetjandi kerfi. Í staðinn fyrir að starfsmenn sæki um fjármagn og bíði eftir þröngri fjárhagsáætlun næsta árs er Intuit með innri nýsköpunarsjóði sem úthluta fjármunum í spennandi hugmyndir. Þannig verða hraðinn og skilvirknin miklu meiri þegar kemur að nýjungum."

FACEBOOK ÞEKKTASTA SPROTAFYRIRTÆKIÐ

"Facebook er þekktasta sprotafyrirtæki í heimi," segir Magnús. "Facebook er dæmi um fyrirtæki sem hefur haldið áfram að beita sprota-aðferðafræðinni þótt það sé orðið alþjóðlegur risi. Það hefur sprotahugsunina í genaformúlu sinni. Allt byggist á eldmóði, dirfsku, vilja og skilvirkni svo hægt sé að þróa nýja vinsæla smelli hratt. Slagorð Facebook er enda Move fast and break things.

Sprotahugsun gróinna stórfyrirtækja forðar þeim líka frá þeim pytti að setja upp klunnaleg kerfi sem hefta nýsköpun og nýjungar - eins og stórfyrirtækjum hættir til að gera. Það felst í því mikil áskorun að gefa starfsmönnum frelsi til að prófa sig áfram og þróa nýjungar án þess að skemma það sem er fyrir.

Ef þú ert til dæmis að vinna sem forritari hjá Facebook geturðu byrjað að breyta útgáfunni hratt - en bara fyrir lítinn hóp notenda en ekki alla, til að sjá hvernig það kemur út. Þetta gerir Facebook kleift að þróa nýjungar mjög hratt og hrinda þeim í framkvæmd."

Magnús segir það mjög misjafnt hvað stórfyrirtæki í Bandaríkjunum verji miklu fé í rannsóknir, þróun og nýsköpun en telur að það sé yfirleitt á bilinu 5 til 20%. Hann nefnir hins vegar annan áhugaverðan kvarða, Innovation Premium, sem mæli hversu stór hluti af tekjum og hagnaði framtíðarinnar komi frá nýjum vörum. "Ef hann sýnir t.d. 20% þá meta fjárfestar það sem svo að 20% af tekjum fyrirtækisins í framtíðinni komi frá nýjum vörum."

DOKTOR Í STJÓRNUN FRÁ COLUMBIA

Magnús er með doktorspróf í stjórnun frá Columbia University í New York. Hann er verkfræðingur í grunninn; menntaður í rafmagns-

"Eitt af því sem ég sá úti í Harvard var að það urðu til mjög fín og frumleg fyrirtæki út úr samstarfi nemenda í Harvard við nemendur í MIT og öðrum þekktum skólum á svæðinu."

og söluverkfræði við Háskóla Íslands. Eftir háskólanám í HÍ stofnaði hann árið 1999 fyrirtækið Handpoint ásamt tveimur félögum sínum úr verkfræðinni.

Á þessum tíma var ný handtölvutækni (Palm Pilot) að koma á markaðinn og stofnun Handpoint snerist í kringum þá tækni. Fyrirtækið smíðaði fyrir snjallsíma og spjaldtölvur og vann ennfremur að kortagreiðslulausnum fyrir fyrirtæki og bankastofnanir tengt afgreiðslukössum, handtölvum og farsímum.

Eftir sex ár hjá Handpoint reyndi enn á sveigjanleikann hjá Magnúsi Þór. Hann breytti til og hóf doktorsnám í stjórnun við Columbia University í New York. Þaðan útskrifaðist hann árið 2009. Þar sem tækifærin voru minni hér heima svo skömmu eftir hrun ákvað hann að sækja um starf í erlendum háskólum. "Það var ekki álitlegt að koma heim á þessum tíma og því ákváðum við að vera lengur úti. Ég sótti um háskóla bæði í Evrópu og Bandaríkjunum. Fór víða í viðtöl og fékk svo loks gott tilboð frá frumkvöðladeildinni í Harvard."

En tímarnir breytast og mennirnir með. Það er þetta með sveigjanleikann í viðskiptalíkönum einstaklinga. Það þarf auðvitað mikið til að segja upp öruggri kennslu í hinum fornfræga Harvard Business School og halda heim á fornar slóðir.
En römm er sú taug er rekka dregur föðurtúna til, orti Jónas Hallgrímsson. Íslenska fjallaloftið feykir ferskum vindum um frumkvöðlafræðina.

MAGNÚS ÞÓR TORFASON

Nafn: Magnús Þór Torfason
Fæddur: 1976
Starf: Lektor við viðskiptafræðideild Háskóla Íslands
Fjölskylda: Kvæntur Guðrúnu Mjöll Sigurðardóttur. Saman eiga þau þrjá syni
Starfsferill: Lektor við Harvard Business School, þar áður stofnandi og þróunarstjóri Handpoint
Menntun: Doktorsnám frá Columbia Business School, verkfræðinám (CS og BS) frá HÍ og tölvunarfræðinám (BS)
Áhugamál: Útivist, fjallgöngur og köfun

 

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is