Stanslaus leiðangur | MBA-nám í Háskóla Íslands

Stanslaus leiðangur

Sögu Vilborgar Örnu Gissurardóttur þekkja flestir. Árið 2013 gekk hún ein síns liðs á suðurpólinn í sextíu daga og síðasta vor, 2017, tókst hún á við erfiðasta

„Ég leit svo á að það yrði miklu erfiðara fyrir mig að fara í gegnum lífið án þess að hafa klárað Everest.“

verkefni sitt til þessa þegar hún kleif hæsta fjall heims, Everest. Ári eftir að hún lauk MBA-námi við Háskóla Íslands stofnaði hún fyrirtæki sitt Tinda Travel og hefur síðan haft í meira en nógu að snúast. „Síðustu ár hafa verið einn stanslaus leiðangur,“ segir hún með bros á vör.

Vilborg var í MBA-hópnum sem útskrifaðist 2011 og námið reyndist ári síðar lykill að því að hún fór út í eigin atvinnurekstur í göngu- og ævintýraferðum. „Það var lykillinn að því að búa mér til atvinnu úr áhugamálinu sem ég brenn fyrir.“

MBA-NÁMIÐ FYRSTA SKREFIÐ AÐ STOFNUN TINDA

Hún segir að MBA-námið hafi skilað sér því sem hún sóttist eftir. „Ég fékk mikla þekkingu á mörgum sviðum viðskipta og stjórnunar, bæði þverfaglega og yfirgripsmikla. Það var mikil og góð reynsla að vinna með öðrum nemendum í hópavinnu að lausn hagnýtra raunverkefna. Það þjappaði hópnum mjög saman. Hitt var ekki síðra að í MBA-náminu öðlaðist ég sjálfstraust til að taka af skarið og fara í eigin atvinnurekstur á sviði gönguferða og leiðangra,“ segir Vilborg með áherslu.

„Ég stofnaði fyrirtækið árið 2012 og svo fengum við ferðaskrifstofuleyfi árið 2016 þegar nýir fjárfestar, meðal annars Arctic Adventures, komu inn í fyrirtækið. Fram

„Í MBA-náminu öðlaðist ég sjálfstraust til að taka af skarið og fara í eigin atvinnurekstur á sviði gönguferða og leiðangra.“

að því vorum við ferðaskipuleggjendur en erum núna ferðaskrifstofa.“

Það er meira en nóg að gera hjá Tindum Travel og Vilborgu Örnu. „Þetta hefur verið ánægjulegur tími og síðustu fimm ár hafa verið leiðangrar og ævintýri út í eitt. Markmið okkar er að vera útivistar- og ævintýraklúbbur og bjóða fólki að taka þátt í ævintýrum með okkur.“

Hún segir að fyrsta stóra verkefni Tinda Travel hafi verið að undirbúa og skipuleggja leiðangur hennar á suðurpólinn 2013. Úr varð þekkt ævintýri á gönguför í sextíu daga

við erfiðar aðstæður. Reynslunni ríkari kom hún heim og hóf að skipuleggja ferðir auk þess sem hún varð vinsæll fyrirlesari. Hún kemur reglulega fram í skólum, hjá félagasamtökum og fyrirtækjum auk þess sem hún heldur vinsæl námskeið og þjálfar fólk og undirbýr það fyrir leiðangra.

ÆVINTÝRI Á GRÆNLANDI OG Í NEPAL

„Tindar Travel bjóða upp á ferðir innan- sem utanlands og hjá okkur starfa þekktir og vanir fararstjórar, miklir reynsluboltar. Þetta eru allt einhvers konar göngu- og ævintýraferðir. Við höfum farið víða en flestar ferðirnar undanfarin ár hafa verið til Grænlands og Nepals. Það eru mjög fínar gönguleiðir á Grænlandi.“

„Við stefnum á að koma með nýjar vörur - ný ævintýri - á markað seinni part ársins. Til að ná árangri verður að bjóða upp á ferðir og leiðangra sem skera sig úr.“

Vilborg segir að árið líti vel út hjá Tindum Travel. Viðskiptavinahópurinn sé orðinn stór og fyrirtækið sinni vöruþróun af elju. „Við stefnum á að koma með nýjar vörur - ný ævintýri - á markað seinni part ársins. Það er mikil samkeppni og til að ná árangri verður að bjóða upp á ferðir og leiðangra sem skera sig úr.“

ÁNÆGÐUST MEÐ ÁNÆGJU VIÐSKIPTAVINANNA

En hvað er hún ánægðust með í starfi Tinda Travel? „Ég er ánægðust með hvað allt fólkið, sem af mikilli ástríðu fer í ferðirnar hjá okkur, hefur notið þeirra. Það er mjög gefandi að koma úr skemmtilegum og krefjandi leiðangri og finna ánægju viðskiptavina. Það er það sem gefur þessu gildi.“

Um góð ráð í stjórnun segir hún miklu skipta að hlusta á sjónarmið þeirra sem starfað er með. „Betur sjá augu en auga. Auðvitað þarf að vera agi og ljóst hver stýrir. En

„Markmið okkar er að vera útivistar- og ævintýraklúbbur og bjóða fólki að taka þátt í ævintýrum með okkur.“

stjórnendur þurfa að gefa starfsmönnum svigrúm til að vera þeir sjálfir og leggja sig fram á eigin verðleikum; við erum ekki öll mótuð í sama farið. Stjórnendur þurfa að skapa andrúm sem ögrar með metnaði og fær einstaklinginn til að vilja gera sitt besta og vaxa. Það gera þeir með því að hvetja, styðja, styrkja og byggja upp liðsheild.“

VINNA MEÐ STYRKLEIKANN - VINNA Á VEIKLEIKUM

Vilborg segist hafa lært mest af þeim yfirmanni sínum sem ýtti undir styrkleika hennar en hjálpaði henni um leið með veikleikana. „Það má enginn horfa fram hjá veikleikum sínum heldur verður að horfast í augu við þá og vinna bug á þeim. Fólk verður helmingi sterkara á eftir.“

En hvernig lýsir hún sjálfri sér í nokkrum setningum? „Ég er býsna hvatvís en ég er líka ákveðin og þrjósk og finnst ég hafa úthald til að klára málin. En þrjóska þarf að vera upp að ákveðnu marki. Það þarf að þekkja sín mörk og fara ekki fram úr sjálfum sér. Ég er heldur ekki hrædd við að bakka út hafi ég ekki sannfæringu fyrir því sem ég geri. Sá sveigjanleiki held ég að sé góður kostur.“

PÓLFERÐIN GRÍÐARLEG VERKEFNASTJÓRNUN

- Það hefur þurft þrjósku til að ganga ein síns liðs í sextíu daga á suðurpólinn á sínum tíma?

„Jú, það þurfti auðvitað þrjósku en fyrst og fremst vilja til að ná markmiðinu. Ég

„Stjórnendur þurfa að gefa starfsmönnum svigrúm til að vera þeir sjálfir og leggja sig fram á eigin verðleikum.“

skipulagði ferðina mjög vel og var vel undirbúin. Pólferðin var gríðarleg verkefnastjórnun og ég kom heim reynslunni ríkari af að undirbúa leiðangur sem þennan. Nú, auðvitað kynnast allir sjálfum sér vel einir á ferð í sextíu daga á Suðurskautslandinu.“

- Hvað með Everest-ferðina í fyrravor?

„Everest er erfiðasta verkefni sem ég hef tekið mér fyrir hendur og markast af þeim áföllum sem ég stóð frammi fyrir á leiðinni. Þarna urðu náttúruhamfarir og slys sem reyndu mjög á mig. En ég leit svo á að það yrði miklu erfiðara fyrir mig að fara í gegnum lífið án þess að klára verkefnið og sigrast á erfiðleikunum við að ná upp á tindinn.“

Það þarf auðvitað ekki að spyrja Vilborgu um áhugamálin. Hún bjó sér til atvinnu úr þeim og rekur fyrirtæki sitt Tinda Travel af metnaði. Hún segist ekki hafa neina tölu á því hve mörg fjöll hún hafi klifið og gengið á. „Ég er ekki í neinum talningum, ég geri þetta vegna þess að mér finnst þetta skemmtilegt.“

VILBORG ARNA GISSURADÓTTIR

NAFN: Vilborg Arna Gissurardóttir.
FÆDD: 16. júní 1980.
FJÖLSKYLDA: Einhleyp.
STARFSFERILL: Framkvæmdastjóri ferðaskrifstofunnar Tinda Travel frá 2012.
MENNTUN: MBA árið 2011, BA í ferðamálafræði 2008, markþjálfi frá HR 2017.
GOTT RÁÐ Í STJÓRNUN: „Að vinna með styrkleikana en vinna á veikleikunum. Um leið og fólk horfist í augu við veikleika sína og vinnur á þeim verður það helmingi sterkara.“
ÁHUGAMÁL: „Ég bjó mér til vinnu úr áhugamálinu.“
ERFIÐASTA VERKEFNIÐ: Evererst-leiðangurinn 2017.
BÚSETA: Í Reykjavík.

 

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is