„MBA opnaði mér dyr í Danmörku“ | MBA-nám í Háskóla Íslands

„MBA opnaði mér dyr í Danmörku“

Hlynur Jóhannsson, deildarstjóri miðstofu í fjársýsludeild höfuðtöðva ECCO SKO A/S í Danmörku og MBA frá HÍ, segir að MBA-námið hafi ekki aðeins reynst sér góður grunnur í starfi heldur verið lykillinn að störfum úti í Danmörku og opnað sér dyr inn á vinnumarkaðinn þegar hann flutti út.

„MBA-námið opnaði mér dyr inn á vinnumarkaðinn hér úti. Það fleytti mér áfram í ráðningarviðtölum, vó þungt í ferilskránni og hefur nýst mér vel í starfi.“

„Ég hef stundum sagt að MBA-námið hafi opnað mér dyr hér úti.  Það fleytti mér áfram í ráðningarviðtölum, vó þungt í ferilskránni og fjölbreytni námsins hefur nýst mér vel í starfi. Ég hvet alla sem ganga með það í maganum að vinna erlendis að láta slag standa og drífa sig út. Það er mikil og góð eftirspurn eftir vel menntuðu fólki hér í Danmörku og MBA-námið góður grunnur að farsælum ferli hér eins og víða annars staðar.“

Hlynur var í MBA-hópnum sem útskrifaðist vorið 2008. „Þetta var sterkur hópur og mjög góð blanda. Við komum úr ýmsum greinum atvinnulífsins. Við vorum í raun jafn ólík og við vorum mörg. Það fannst mér mikill kostur - sem kom glöggt í ljós í verkefnavinnunni.“

MAERSK, ARLA OG ECCO

Fjölskyldan fluttist út til Danmerkur árið 2009 og settist að í borginni Esbjerg á Jótlandi. Þar býr hún enn. Hlynur hóf fljótlega störf sem deildarstjóri fjármála í dótturfyrirtæki danska skipafélagsins Maersk,  Maersk Container Industry, og öðlaðist þar góða reynslu á þeim fimm árum sem hann var þar. Fyrirtækið framleiðir gáma og er núna eina framleiðslufyrirtækið sem eftir er innan Maersk-samsteypunnar. Áður en hann hóf störf hjá ECCO lá leiðin meðal annars um tíma í fjármáladeild danska mjólkurrisans Arla sem og Schela Plast sem er lítið fjölskyldufyrirtæki sem starfar í plastiðnaðinum.

„Yfirmenn mínir hafa orðað það þannig að ég hafi þetta „can do“-viðhorf; að ég mikli ekki verkefni fyrir mér heldur hefjist handa.“

Höfuðstöðvar ECCO eru í litlum bæ á Suður-Jótlandi, Bredebro, nálægt þýsku landamærunum. Þetta er fjölskyldufyrirtæki sem selur afurðir sínar í 88 löndum og er með yfir þrjú þúsund ECCO-verslanir víða um heim. Hver þekkir annars ekki ECCO-merkið sem stendur fyrir gæðaskó, -töskur, -veski og -belti? Allt úr leðri.

MBA-NÁMIÐ NÝST VEL

 „MBA-námið hefur nýst mér vel hjá þessum stórfyrirtækjum. Ég nefni sérstaklega þætti eins og fjármál, rekstrarumhverfi fyrirtækja, stefnumótun, alþjóðaviðskipti og alþjóðleg samskipti. Ég hef ferðast töluvert í starfi mínu og fengið að kynnast mismunandi menningarheimum. Að þekkja og skilja mismunandi rekstrarumhverfi og menningu á milli markaða er ein af undirstöðunum til að ná árangri,“ segir Hlynur.

KARL TOOSBUY STOFNAÐI ECCO

Það var danski frumkvöðullinn Karl Toosbuy sem stofnaði ECCO-fyrirtækið árið 1963. Þrátt fyrir stærð þess og umfang er það ekki skráð í kauphöllinni heldur er enn í eigu fjölskyldu stofnandans; dóttur Karls og tveggja barna hennar. Velta fyrirtækisins er í kringum 1,3 milljarðar evra, eða um 163 milljarðar króna. Starfsmenn eru 21 þúsund og dótturfyrirtæki 75 talsins. Fyrirtækið rekur sína eigin aðfangakeðju – sem byrjar á vinnslu hráskinns og endar í hágæðaskóm og lúxusvörum í glæsilegum ECCO-verslunum.

„Síðasta ár var mjög gott og jákvæð þróun á okkar helstu mörkuðum eins og Kína og Rússlandi,“ segir

„Liðsheildin skiptir mestu máli innan fyrirtækja. Andrúmið verður að vera hvetjandi og tónn stjórnandans einkennast af virðingu og auðmýkt.“

Hlynur um reksturinn. „Vöxturinn hefur verið góður og Kína er núna einn okkar mikilvægasti markaður. Við erum með sex skóverksmiðjur í Asíu og Evrópu, auk fjögurra verksmiðja sem vinna leður. Lítil framleiðsla er í Danmörku en héðan er þó allri framleiðslu og sölu stjórnað.“

ECCO MEÐ INNRI BANKA

Það vekur athygli í skipulagi ECCO að fyrirtækið rekur sinn eigin innri banka í höfuðstöðvunum sem þjónustar dótturfyrirtækin um allan heim. Bankinn heldur utan um öll fjármál samsteypunnar. Fjársýslan, þar sem Hlynur er deildarstjóri miðstofu (Manager, Middle office, Treasury), annast meðal annars eftirlit, greiningu á gengisáhættu, áætlanagerð, samskipti við ytri banka, fjármögnun dótturfyrirtækja, eftirlit með arðgreiðslum, skýrslugerð og fleira.

Hlynur hefur mestan sinn feril fengist við fjármál hjá þeim fyrirtækjum þar sem hann hefur starfað. Áður en hann fluttist út til Danmerkur vann hann hjá Norðuráli og var í verkefnahópi sem sá um byggingu verksmiðjunnar í Helguvík. „Það var mjög dýrmæt reynsla. Þetta var fjölþjóðlegur hópur og það var gaman að vera hluti af þessu verkefni á þessum tíma. Verkefnið var krefjandi og skemmtilegt. Það er miður hvernig það strandaði í lokin og að verksmiðjan skyldi hefja rekstur.“

HIÐ BREIÐA SVIÐ MBA-NÁMSINS

En hvers vegna MBA-nám? „Ég var með BS.c í viðskiptafræði frá Háskólanum á Akureyri og fannst ég þurfa að bæta við mig eftir að hafa verið í nokkur ár á vinnumarkaðnum. Ég skoðaði nokkra kosti en valdi MBA við HÍ. Reynsla undanfarinna ára hefur sýnt mér hve þetta nám var gagnlegt og mikilvægt.“

Hlynur segir ennfremur að fyrir utan breitt svið námsins hafi verkefnavinnan staðið upp úr. „Þetta voru raunhæf, krefjandi og alvöru hagnýt verkefni. Það var mikill kostur hvað við vorum ólík og með ólíkan bakgrunn. Ég kom úr fjármálageiranum og var með frekar þröngt fjármálalegt sjónarhorn í verkefnunum; aðrir komu inn með aðra sýn. Þetta var mjög gefandi.“

„Höfuðstöðvar ECCO eru í litlum bæ á Suður-Jótlandi, Bredebro, nálægt þýsku landamærunum. Þetta er fjölskyldufyrirtæki með yfir þrjú þúsund verslanir víða um heim.“

Spurður um muninn á íslenskum og dönskum stjórnendum segir Hlynur að eitt af því fyrsta sem hann tók eftir hafi verið að  í Danmörku endurspeglast gildi, markmið og stefna fyrirtækja í daglegum störfum stjórnenda. „Stjórnendur hér gangast mikið upp í þeim gildum sem fyrirtæki hafa sett sér. Þau eru alltaf nálægt og litið til þeirra við ákvarðanatöku.“

STEFNUMÓTUN Í ANDA EIGNARHALDS

„Það er líka fróðlegt að sjá hvernig stefnumótun fyrirtækjanna markast af eignarhaldi þeirra. Maersk er danskt alþjóðlegt félag sem er skráð á hlutabréfamarkaði. Arla er samvinnufélag og ECCO er fjölskyldufyrirtæki. Öll hafa þessi fyrirtæki mismunandi áherslur í stefnumótun sinni. Hins vegar hafa þau öll svipaðar áherslur þegar kemur að gildum og samfélagslegri ábyrgð.“

Um fyrirtækjamenninguna í Danmörku segir Hlynur að hún einkennist af jafnvægi á milli vinnu og einkalífs. „Danir leggja mikið upp úr því að gott jafnvægi sé á milli starfs og einkalífs. Hér hefur starfsfólk góðan tíma til að sinna áhugamálum sínum í frístundum.“

Varðandi hina klassísku spurningu um góð ráð handa ungu fólki sem ætlar að stofna fyrirtæki og fara í sjálfstæðan rekstur segir Hlynur mikilvægast að gera raunhæfa viðskiptaáætlun. „Mér finnst oft eins og ekki sé tekið tillit til óvissuþátta í viðskiptaáætlunum og fyrir vikið verði þær of viðkvæmar fyrir breytingum. Ég hef ekki enn séð viðskiptaáætlun sem hefur staðist hundrað prósent og þess vegna verður að gera ráð fyrir frávikum og óvæntum breytingum á viðskiptaumhverfinu.“

STJÓRNAÐ MEÐ DYRNAR OPNAR

Hlynur er með skemmtilega líkingu við MBA-námið þegar hann ræðir kosti góðs stjórnanda. „Hann þarf að hafa dyrnar opnar,“ segir hann strax. „MBA-námið opnar dyr og einkenni góðs stjórnanda er að hafa dyrnar opnar. Þannig sýnir hann best að hann sé einn af liðinu og að alltaf sé hægt að sækja til hans. Alveg eins og í hópíþróttum þá er það liðsheildin sem skiptir mestu máli innan fyrirtækja. Andrúmið verður að vera hvetjandi og tónn stjórnandans einkennast af virðingu og auðmýkt.“

En hvernig lýsir hann sjálfum sér? „Það er nú það; þessi er erfið. Ég tel mig frekar rólegan að upplagi og

„Það er mikil eftirspurn eftir vel menntuðu fólki hér í Danmörku og MBA-námið góður grunnur að farsælum ferli hér eins og víða annars staðar.“

aðlagast ágætlega í samstarfshópum. Ég hef heyrt það oftar en einu sinni frá mínum yfirmönnum að ég hafi þetta „can do“-viðhorf; að ég mikli ekki verkefni fyrir mér heldur hefjist handa. Ég verð víst að játa þann galla að ég er svolítið þrjóskur. Held að það séu leifar frá því ég var í fótboltanum í gamla daga; þ.e. að gefast aldrei upp fyrr en leiknum er lokið, þannig að keppnisskapið er aldrei langt undan. Þessi þrjóska getur verið svolítill kostur líka.“

FÓTBOLTI OG FERÐALÖG

Hlynur er alinn upp suður með sjó, í Garðinum, og spilaði fótbolta með Víði lengst af sínum ferli. Hann á fjögur börn og tvö yngstu æfa knattspyrnu í Danmörku. „Áhugamálin hér úti snúast töluvert í kringum fótbolta og þeir eru ófáir tímarnir sem fara í æfingar og keppnir hjá yngstu börnunum. Eins hef ég mjög gaman af að smíða og búa til hluti með höndunum.  Og þá ferðumst við eins oft og kostur er; héðan er stutt að aka til ýmissa landa í Evrópu.“

 

HLYNUR JÓHANSSON

FULLT NAFN: Hlynur Jóhannsson.

FÆDDUR: Fæddur: 16. júní 1971. 46 ára. Alinn upp suður með sjó; í Garðinum.

MAKI: Þórhildur Jónsdóttir.

BÖRN: Ámundi Georg, Sunneva Rós, Kató Hrafn og Gabríel Alex.

STARF: Deildarstjóri miðstofu í fjársýsludeild, (Manager, Middle office, Treasury),  í höfuðstöðvum ECCO SKO A/S í Danmörku.

STARFSFERILL: ECCO SKO A/S frá 2017, Schela Plast 2016, Arla 2014-2016, A.P. Møller-Maersk 2010-2014.

NÁM: MBA frá HÍ árið 2008, BS.c í viðskiptafræði frá Háskólanum á Akureyri 2003.

ÁHUGAMÁL: „Fótbolti, ferðalög og svo hef ég gaman af að elda góðan mat sem og að smíða og skapa hluti í höndunum.“

ÍÞRÓTTIR: Spilaði knattspyrnu með Víði í Garðinum – sem og með Leiftri á Ólafsfirði og KA á Akureyri.

GOTT RÁÐ Í STJÓRNUN: „Að stjórnendur hafi dyrnar opnar og hleypi starfsmönnum að sér. Séu samkvæmir sjálfum sér og komi fram við samstarfsfólk af virðingu og auðmýkt.“

 

 

 

 

 

 

 

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is