„Harpa engu öðru húsi lík“ | MBA-nám í Háskóla Íslands

„Harpa engu öðru húsi lík“

Arngrímur Fannar Haraldsson, viðskiptastjóri tónleikahalds Hörpu, segir að yfir tvær milljónir gesta hafi komið í Hörpu á síðasta ári og þetta glæsilega menningarsetur hafi gjörbreytt tónleika- og ráðstefnuhaldi á Íslandi. Húsið sé orðið viðkomustaður flestra erlendra ferðamanna sem sækja Reykjavík heim. „Það er ólíklegt að annað eins hús og Harpa verði byggt á næstu áratugum á Íslandi; Harpa er engu öðru húsi lík.“

„Það er ólíklegt að annað eins hús og Harpa verði byggt á næstu áratugum á Íslandi; Harpa er engu öðru húsi lík.“

Arngrímur Fannar er einn þeirra sem prýða nýjan bækling MBA-námsins. Hann hóf námið síðastliðið haust og segist því enn vera að forma og meðtaka það.

„Þetta hefur gengið vel og verið gefandi og skemmtilegur tími. Ég hef gaman af náminu en auðvitað er misjafnt milli námsgreina hversu vel maður er að sér og sumt reynir meira á mann en annað. Hópurinn þekkist orðið vel og hefur þjappast saman. En þetta er auðvitað svolítið púsl með tímann; að skipta honum á milli fjölskyldu, vinnu og skóla.“

Hann var búinn að hugleiða lengi að fara í MBA-námið en ýtti því alltaf frá sér vegna anna og ánægju í núverandi starfi. „Ég þekki nokkra sem höfðu farið í þetta nám og þeir létu vel af því. Þannig að á síðasta ári sagði ég við sjálfan mig að það væri kominn tími til að ég bætti við mig faglegri þekkingu.“

GEFANDI OG LÆRDÓMSRÍKT HÓPASTARF Í MBA

Hann segir námið vera eftirsóknarvert og fjölbreytt og líkt og aðrir nefnir hann hópastarfið sérstaklega. „Það var

„Það var búið lýsa ágæti hópastarfsins fyrir mér. Það hefur samt komið mér skemmtilega á óvart hve það er lærdómsríkt.“

búið að lýsa ágæti vinnuhópanna fyrir mér. Engu að síður hefur það komið mér þægilega á óvart hve þeir eru gefandi og lærdómsríkir. Það er tekist á við raunhæf verkefni og hóparnir eru kröftugir og líflegir. Í þeim speglast vel hvað fólk er ólíkt og með mismunandi styrkleika og veikleika - svona rétt eins og úti á vinnumarkaðnum.“

Arngrímur útskrifaðist með BS í ferðamálafræði frá Háskóla Íslands og segist ætíð hafa verið í skemmtilegum störfum. Eftir útskriftina í HÍ hóf hann störf hjá Icelandair hotels en þaðan lá leiðin til Glitnis og síðan Vodafone.

VIÐSKIPTASTJÓRI HÖRPU FRÁ UPPHAFI

Hörputónninn var svo gefinn haustið 2010 þegar hann var ráðinn viðskiptastjóri tónleikahalds Hörpu nokkrum mánuðum áður en húsið var opnað með viðeigandi viðhöfn vorið 2011. „Ég er svo heppinn að hafa fengið að þróa starfið í Hörpu og verið með frá upphafi. Þetta er búið að vera mikið og gefandi ferðalag og starfið er fjölbreytt og lifandi og viðburðirnir margir og mismunandi.“

„Ég hvet alla til að leita ráða hjá öðrum en þegar ákvörðun er tekin er mikilvægt að fara eftir eigin sannfæringu.“

Arngrímur segir að Harpa hafi breytt miklu í íslensku tónleikahaldi og húsið laði til sín innlenda sem þekkta erlenda tónlistarmenn. Hróður hússins hafi borist víða um heim, hljómburðurinn sé annálaður fyrir gæði og tónlistarmenn og viðburðahaldarar séu að öllu jöfnu ánægðir með þá umgjörð sem þeim er boðið upp á og þá þjónustu sem þeim er veitt í Hörpu.

„Harpa er stór menningarmiðstöð, félagsheimili allra Íslendinga, sem iðar af lífi allan daginn. Ráðstefnur og tónleikar eru í aðalhlutverki en húsið sjálft og arkitektúr þess dregur til sín fjölda erlendra ferðamanna á ári sem koma gagngert til að skoða ævintýraheim hússins. Harpa er þannig orðin viðkomustaður flestra erlendra ferðamanna sem sækja Reykjavík heim og heildarfjöldi allra gesta er kominn yfir 2 milljónir á ári,“ segir Arngrímur.

Ráðstefnum og tónleikahaldi á Íslandi hefur fjölgað með komu hússins og stærstu og viðamestu ráðstefnurnar gætu vart verið haldnar hér á landi nema í Hörpu. Þannig hefur Ólafur Ragnar Grímsson, fyrrverandi forseti Íslands, sagt að ráðstefnan Arctic Circle; Hringborð norðurslóða, sem yfir tvö þúsund erlendir gestir sækja, hefði ekki orðið til án Hörpu.

STOFNAÐI HLJÓMSVEITINA SKÍTAMÓRAL

Arngrímur Fannar er Selfyssingur og stofnaði hljómsveitina Skítamóral á sínum unglingsárum. Sveitin sú var um árabil ein vinsælasta hljómsveit landsins og er enn starfandi. „Ég hef þó aldrei beint litið á mig sem tónlistarmann í þeim skilningi, hef meira heillast af umstanginu og rekstrinum í kringum tónleikahald fremur en tónlistinni sjálfri.“

Beðinn um eftirminnileg ráð í stjórnun segir hann góðan og uppbyggilegan liðsanda fyrir öllu. „Stjórnendur verða að ná upp leikgleði og góðri samvinnu starfsmanna til að ná árangri. Þeir verða að byggja upp eldmóð en gæta líka að álaginu í hópnum svo ferskleikinn og frumlegheitin koðni ekki niður.“

GÓÐ RÁÐ Í STJÓRNUN

En hvaða ráð gæfi hann ungu fólki sem hyggur á eigin rekstur. „Ég segði því að sýna þolinmæði og flýta sér hægt; vanda til verka í forvinnu og áætlanagerð. Viðskiptaáætlunin verður að vera á hreinu og tímasett. Það er sömuleiðis ágætt að láta aðra ekki hræra um of í sér heldur finna eigin hraða. Ég hvet samt alla til að leita ráða hjá öðrum til að draga úr líkum á mistökum sem aðrir hafa þegar gert. En verði fólki á í rekstrinum er mikilvægt að læra af mistökunum og láta þau ekki buga sig; bara standa upp og halda áfram. Í öllum stórum ákvörðunum er mikilvægt að hlusta á innri rödd og fara eftir eigin sannfæringu.“

AÐ SKILJA HVERNIG HJARTAÐ Í FYRIRTÆKINU SLÆR

Spurður um stjórnunarhæfileika síns besta yfirmanns á ferlinum. „Ég dáðist að því hvað hann lagði sig alltaf fram um að kynnast starfsmönnum vel og þekkja þá með nafni. Sjálfur er ég frekar ómannglöggur og þarf að hafa mig allan við til að muna nöfn. Stjórnandi, sem situr ekki í einhverjum turni heldur er í góðum tengslum við samstarfsmenn sína, skilur best hvernig hjartað í fyrirtækinu slær.“

En þá er það hin klassíska spurning um hvernig hann lýsi sjálfum sér í nokkrum setningum. „Ég held ég sé

Arngrímur Fannar er Selfyssingur og stofnaði hljómsveitina Skítamóral á sínum unglingsárum en sveitin er ennþá starfandi næstum 30 árum síðar.

staðfastur og yfirvegaður - og yfirleitt er erfitt að raska ró minni. Ég vona að mér sé lýst sem traustum og ágætum í mannlegum samskiptum. Minn helsti veikleiki er hluti af því sem ég nefndi áðan sem styrkleika. Þótt ég hvetji alla til að velja sér sinn eigin hraða þá á ég það til að taka mér of langan tíma til að hugsa mál og undirbúa þau.“

EKKI VEITT ÞANN STÆRSTA ENNÞÁ

Arngrímur Fannar segir skíði, stangveiði og hestamennsku helstu áhugamál sín og fjölskyldunnar. Fjölskyldan skíði bæði hér heima og erlendis og haldið sé til árlegrar veiði í Veiðivötnum, Norðurá í Borgarfirði og Langá á Mýrum. Eins hafi fjölskyldan aðgang að hestum og fleiri dýrum þar sem foreldrar hans búi í sveit.

Um stærsta laxinn sem hann hafi veitt? „Ég á ennþá eftir að veiða þann stærsta.“

 

ARNGRÍMUR FANNAR HARALDSSON

Fullt nafn: Arngrímur Fannar Haraldsson.
Fæddur: 23. apríl árið 1976; 42 ára. Uppalinn á Selfossi.
Fjölskylda: Maki: Yesmine Olsson.
Börn: Haraldur Fannar, Ronja Ísabel og Óliver Emil
Starfsferill:  Viðskiptastjóri í Hörpu frá 2011; vann áður hjá Vodafone, Glitni og Icelandair hotels.
Nám: Stúdent frá Fjölbrautaskóla Suðurlands. BS í ferðamálafræði frá HÍ árið 2005. MBA-nám við HÍ frá því sl. haust.
Áhugamál: Skíði, stangveiði, hjólreiðar, útreiðar ofl.
Tónlist: Stofnaði hljómsveitina Skítamóral fyrir hartnær 30 árum og hún er ennþá starfandi.
Gott ráð:  Að stjórnendur sitji ekki í turni heldur séu í góðum tengslum við starfsólkið og viti þannig á hverjum tíma hvernig hjartað slær í fyrirtækinu.

 


 

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is