„Ég upplifði að ég væri að nýta eitthvað úr náminu á hverjum degi“ | MBA-nám í Háskóla Íslands

„Ég upplifði að ég væri að nýta eitthvað úr náminu á hverjum degi“

Egill Jóhannsson var brautskráður með MBA-gráðu frá Háskóla Íslands laugardaginn 24. júní síðastliðinn við hátíðlega athöfn í Laugardalshöll ásamt 38 samnemendum hans úr MBA-náminu. Egill hlaut ágætiseinkunnina 9,26 sem er hæsta meðaleinkunn sem gefin hefur verið í MBA-náminu fram til þessa. Það kom kannski ekki á óvart en á lokakvöldi MBA-námsins hlaut Egill viðurkenningu fyrir það að vera sá nemandi sem hópurinn lærði mest af í náminu.

Egill starfar sem forstjóri Brimborgar og hóf MBA-námið haustið 2015 ásamt stórum hópi af stjórnendum og sérfræðingum úr atvinnulífinu. Við fengum Egil til að segja nánar frá upplifun sinni af MBA-náminu í Háskóla Íslands.

Hvað liggur að baki svona góðum árangri?

Ég myndi segja að það væri blanda af nokkrum þáttum. Í fyrsta lagi er námið mjög skemmtilegt og MBA hópurinn náði einstaklega vel saman, kennarar frábærir sem og starfsfólk MBA námsins. Svo skiptir máli stuðningur fjölskyldu og ekki síður samstarfsmanna hjá Brimborg. Viðskiptafræðimenntun mín frá HÍ var síðan góður grunnur og löng reynsla úr atvinnulífinu í margvíslegum störfum og svo lagði ég mjög mikla vinnu í námið.                            

Hvernig nýttist MBA-námið þér í þínu starfi?

Ég upplifði að ég væri að nýta eitthvað úr náminu á hverjum degi. Nám hefur ákveðinn líftíma og nauðsynlegt að viðhalda því en ég útskrifaðist sem viðskiptafræðingur frá HÍ árið 1991. Ég hef í gegnum tíðina lesið mikið efni sem tengist viðskiptum, bækur og tímarit, en með því að fara í svona nám þá verður lesturinn agaðri, kröfurnar meiri, sem er mjög gott. Í fögum þar sem maður þekkti ágætlega til var maður að rifja upp eða kafa dýpra og jafnvel uppgötva eitthvað nýtt eins og t.d. stefnumótun og markaðsmálum. Í öðrum fögum þar sem maður hafði ekki sérþekkingu eins og fjármál fyrirtækja lærði maður fullt af nýjum hlutum. Þennan lærdóm var maður síðan að nýta mjög vel í ýmis verkefni sem tengdust Brimborg og meðal annars lokaverkefnið.

Um hvað fjallaði lokaverkefnið þitt og hver var niðurstaða þess?

Það var einstaklega skemmtilegt en krefjandi að skrifa lokaverkefnið. Það fjallaði um stefnumiðaða stjórnun og hvernig hún nýtist við stofnun á nýju dótturfélagi Brimborgar og hvernig það fyrirtæki getur aðgreint sig á markaði og nýtt aðferðafræði og verkfæri stefnumiðaðrar stjórnunar til þess. Meðal annars gekk verkefnið út á það að beita aðferðum stefnumiðaðrar stjórnunar við hönnun á nýju húsnæði þessa nýja fyrirtækis sem nú er að rísa á Hádegismóum 8 í Árbæ.

Ég ákveð fljótlega eftir að námið hófst haustið 2015 að viðfangsefni lokaverkefnisins yrði þetta en ákvörðun um stofnun þessa nýja fyrirtækis og byggingu hússins var tekin í byrjun árs 2016. Niðurstaða verkefnisins er að stefna fyrirtækisins liggur fyrir, þeir lykilsárangursþættir sem taldir eru skipta mestu máli til árangurs á markaðnum skilgreindir, færni og geta sem þarf til að uppfylla þá þætti metin og húsnæðið meðal annars hannað í samræmi við þá niðurstöðu. Ég get upplýst það hér að fyrirtækið mun heita Veltir ehf. og mun sjá um sölu og þjónustu á Volvo atvinnutækjum eins og vörubílum, vinnuvélum, rútum og bátavélum. Framkvæmdir eru hafnar og stefnt er að opnun nýja fyrirtækisins í nýja húsnæðinu í lok árs 2017.

Hvað kom þér mest á óvart í MBA-náminu?

Það var margt en má nefna frábæran hóp samnemenda, hversu krefjandi námið var, námsferðina til Georgtown University í Washington og einstakt verkefni sem hópurinn vann fyrir Starbucks í Seattle svo nokkur atriði séu nefnd.

Hvað tekur þú með þér úr MBA-náminu?

Fullt af nýjum vinum, þekkingu, reynslu og skemmtilegar minningar.

Hvernig er lífið eftir MBA?

Þegar þetta er skrifað þá er ég kominn í þriggja vikna, kærkomið frí, sem verður nýtt til að bæta upp tapaðan tíma með fjölskyldu og vinum, rifja upp golftakta en golfiðkun og ýmislegt annað varð að víkja fyrir námi og vinnu. Og síðast en ekki síst þarf ég nú að herða æfingar fyrir 20 daga gönguferð í grunnbúðir Everest í haust.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is