MBA stjórnendanám í Háskóla Íslands fær alþjóðlega framhaldsvottun | MBA-nám í Háskóla Íslands

MBA stjórnendanám í Háskóla Íslands fær alþjóðlega framhaldsvottun

Alþjóðlegu samtökin AMBA (Association of MBA's), sem hafa það að markmiði að efla gæði menntunar á sviði stjórnunar og reksturs, hafa veitt MBA námi við Háskóla Íslands framhaldsvottun til fimm ára án skilyrða. Þetta er í annað skipti sem AMBA tekur út og vottar MBA nám háskólans, en árið 2014 veittu samtökin náminu þriggja ára vottun. Fulltrúar frá AMBA komu til landsins í febrúar til að taka út umgjörð og innihald MBA námsins og áttu í því skyni fundi með stjórn námsins og starfsfólki, kennurum, bæði núverandi og útskrifuðum nemendum sem og stjórnendum íslenskra fyrirtækja. Ferli framhaldsvottunar er nokkuð umfangsmikið þar sem fjölmargir þættir sem tengjast náminu eru skoðaðar svo sem tilgangur og stjórnun námsins, hæfni kennara, bakgrunnur nemenda, námskrá og skipulag námsins.

AMBA samtökin voru stofnuð 1967 og hafa tekið út og vottað MBA nám við marga af bestu háskólum heims. Nú hafa 225 háskólar fengið vottun frá AMBA. Vottun MBA námsins við Háskóla Íslands er staðfesting á því góða starfi sem þar hefur verið unnið, en frá upphafi hefur megináhersla verið lögð á þjóna íslensku atvinnulífi og bjóða upp á metnaðarfaullt stjórnendanám. Úttektir AMBA eru mikilvægur liður í að viðhalda gæðum námsins og sú viðurkenning sem MBA námið við Háskóla Íslands hefur nú hlotið er einkar ánægjuleg fyrir Háskóla Íslands, núverandi MBA-nemendur og þá sem hafa brautskráðst með MBA-gráðu frá 2002.

Á mynd má sjá fulltrúa frá AMBA ásamt stjórnendum MBA námsins: F.v. Luis Torras, Bodo B.Schlegemilch, Brigitte Nicolaud, Sveinn Agnarsson, Magnús Pálsson, Svala Guðmundsóttir, Ingi Rúnar Eðvarðsson, Katherine O'Flynn, Gyða Hlín Björnsdóttir og Lena Heimisdóttir

Allar frekari upplýsingar um námið er að finna á www.mba.is

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is