Glæsilegur árangur MBA nemanda | MBA-nám í Háskóla Íslands

Glæsilegur árangur MBA nemanda

Útskrifaðist með ágætiseinkunn úr MBA náminu

Sunna Ólafsdóttir Wallevik var eini MBA nemandinn sem brautskráðist í síðasta mánuði, með ágætiseinkunnina 9,15. Einkunn Sunnu fyrir lokaverkefni hennar var 9,5 en verkefnið gerði hún fyrir Elkem Ísland. Sunna missti af einu námskeiði vegna barneigna og náði því ekki að útskrifast með MBA hópnum sem hún var í. Sunna er með BS í efnafræði með áherslu á verkfræði og meistaragráðu í ólífrænni efnafræði og starfar hjá Nýsköpunarmiðstöð Íslands að rannsóknum sem tengjast orkuiðnaðinum.

Sunna er einnig framkvæmdastjóri frumkvöðlafyrirtækisins Gerosion sem veitir ráðgjöf, efnisprófanir og sérhæfða rannsóknar- og þróunaraðstoð fyrir aðila í jarðhita- og olíuiðnaðinum. Fyrirtækið sérhæfir sig einnig í og leiðir, rannsóknarverkefni á sviði efnistækni þá sérstaklega á nýtingu jarðhita. Jafnframt veitir það ráðgjöf og þjónustu í efnistæknirannsóknum fyrir byggingar- og stóriðjuframleiðslu. Gerosion er einnig umhugað um að vinna að nýstárlegum uppfinningum sínum á þessum fræðisviðum og koma þeim á markað. Við erum t.d. að hanna sérstaka Fórnarfóðringu fyrir jarðhitaborholur og erum einnig að þróa umhverfisvænt sementslaust steinlím til notkunar í byggingariðnaði og til að binda aukaafurðir og úrgang sem hráefni fyrir orkufrekan iðnaðarframleiðslu. Við höfum fengið fjölmarga rannsóknastyrki fyrir þróunarvinnunni sem gengur vel.

Ástæða þess að þú fórst í MBA?

Ég hafði nýlega stofnað frumkvöðlafyrirtækið Gerosion ehf. með fleiri sérfræðingum á sviði jarðvarma og efnistækni og þótt vísindalegi bakgrunnur okkar væri sterkur fannst mér vanta upp á að læra meira um stjórnun og rekstur. Mig langaði einnig mikið að styrkja við viðskiptafræðilega grunninn.

Lokaverkefnið í MBA náminu; um hvað var það? Hefurðu náð að nýta það?

Verkefnið ber heitið: Hagkvæmisathugun á kögglun úrgangsefna fyrir kísiljárnframleiðslu, sem ég vann fyrir Elkem Ísland, kísilmálmsverksmiðjuna á Grundartanga. Í grundvallaratriðum gekk verkefnið út á hagkvæmisathugun á nýrri efnistækniaðferð sem við erum búin að vera að þróa til að nýta úrgangsefni og hliðarafurðir sem hráefni í kísilmálmframleiðslu Elkem og kanna hvort það væri fjárhagslegur og umverfislegur ávinningur á að endurnýta ákveðin efni, úrgang og hliðarafurðir aftur sem hráefni í framleiðsluna. Í verkefninu var m.a. fullþróuð tækni til að köggla fínkornótt efnin til að mynda einingar með nægilegan brotstyrk til að þola meðferðina sem þarf til að koma þeim inn á ljósbogaofn framleiðslunnar. Hluti af þessari rannsókn var efnisfræðileg þróunarvinna. Sú vinna var framkvæmd til að bera kennsl á hvaða kögglar myndu standast það álag sem þeir þurfa að þola í framleiðsluferlinu. Ég útbjó svo líkan þar sem útskiptingargreining var notuð til að meta hvort að notkun á þessum kögglum í framleiðslunni skili fjárhagslegum sparnaði og lækkun á kolefnisspori framleiðslunnar. Lífsferilsgreining var byggð inn í útskiptingargreiningarlíkanið og því var einnig lagt mat á breytingu á kolefnisspori framleiðslunnar. Næmnigreining var svo framkvæmd til þess að meta hvernig breyting á efnasamsetningu kögglana hefur áhrif á kostnaðarlega hagræðingu. Var Steypustöðin ehf. fengin til að framleiða þessar kögglahellur í helluverksmiðju sinni í Hafnafirði og er nú svo komið að Steypustöðin er farin að framleiða um 7.000 tonn á ári af hráefni fyrir framleiðslu Elkem, endurnýtt efni sem annars hefði getað endað sem úrgangur. Í kjölfar lokaverkefnisins og þeirra verkefna sem ég hafði unnið fyrir Elkem Ísland á undanförnum árum, bauðst mér þriggja ára rannsóknarstaða hjá Elkem í gegnum Nýsköpunarmiðstöð Ísland.

Ég var fyrsti styrkþeginn að slíkri iðnaðartengdri rannsóknarstöðu hjá Elkem sem jafnframt veitir mér rannsóknarfrelsi til annarra rannsókna. Með rannsóknarstöðunni og út frá þróunarverkefnunum ætlum við okkur að reisa sérstaka helluverksmiðju á Grundartanga með Steypustöðinni ehf. við hlið kísiljárnframleiðslu Elkem Ísland þar sem við ætlum að auka framleiðsluna úr 7 þúsund tonnum yfir í 50 þúsund tonn á ári með endurnýtingu þeirra efna sem falla til við framleiðsluna ásamt því að geta keypt ódýrari úrgangshráefni erlendis frá og lækka þannig framleiðslukostnaðinn enn frekar. Markmiðið er svo að frekari umhverfisvæn hráefnabindiefnapökkun eigi sér einnig stað í nýju verksmiðjunni, þar sem m.a. er stefnan að notast að einverju leiti við umverfisvæna sementslausa steinlímið sem Gerosion hefur verið að þróa, sem er mjög spennandi. Þessi kögglunarverkefni hafa nú þegar skilað Elkem Ísland umtalsverðum umhverfislegum og kostnaðarlegum ávinningi og er áætlunin að árangurinn verði enn umfangsmeiri með nýjum efnistækniaðferðum sem nú er unnið að. Ennfremur eru fleiri Elkem verksmiðjur í heiminum að fara að taka upp nýja íslenska efnistækniferilinn í kjölfar þess árangurs sem hefur náðst á undanförnum tveimur árum í þessum verkefnum okkar.

Hvernig fórstu að því að samræma vinnu, barneignir og MBA nám?

Það hentaði mér mjög vel að taka MBA námið í fæðingarorlofinu og í raun dreif ég mig að skrá mig í námið þegar ég vissi að ég ætti von á mínu þriðja barni því ég sá ekki fram á að hafa annars tíma til þess næstu árin, þótt MBA námið væri nám með vinnu. Það virkaði alveg vel saman og eiginmaðurinn minn tekur mikinn þátt í uppeldinu og tók gott fæðingarorlof með mér. Mér þótti í raun heldur erfiðara að ná að tvinna öllu saman þegar fæðingarorlofinu var lokið en þá hjálpaði mikið að geta tengt hagnýt verkefni í náminu við vinnuna og að vinnan við lokaverkefnið var eins og að fá að vinna að mínu helsta áhugamáli. Ég mæli því algjörlega með að velja lokaverkefni eftir áhugasviði.

Við óskum Sunnu til hamingju með frábæran árangur.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is