Þar gerast hlutirnir | MBA-nám í Háskóla Íslands

Þar gerast hlutirnir

„Eftir alla stefnumótunar- og hugmyndafundina höfum við fundið okkar syllu; vinna með frumkvöðlum og aðilum í sjávarútvegi og vinnslu sjávarfangs (marine industry) því þar gerast hlutirnir“ sögðu þau Þór Sigfússon stofnandi og stjórnarformaður Sjávarklasans og Berta Daníelsdóttir nýráðin framkvæmdastjóri. Þau voru gestir MBA námsins á fundi sem haldinn var á Fosshóteli við Þórunnartún.

Umgjörðin um Sjávarklasann hefur þróast undra hratt frá því að Þór Sigfússon varði doktorsritgerð sína vorið 2012 við HÍ þar sem hann skoðaði tengslanet frumkvöðla í alþjóðlegum nýsköpunarfyrirtækjum. Eftir það vann hann að framsæknu verkefni um Sjávarklasann sem flestir þekkja í dag. Sjálfsagt kemur ýmsum á óvart hve gróskan hefur verið mikil því fyrirtækin sem mynda þessa umgjörð nú (í janúar 2017) eru orðin 65 talsins, allt frá nýstofnuðum sprotum yfir í útstöðvar stærri fyrirtækja. Og flóran er mikil allt frá starfsemi sem snýr að veiðum, eldi og sölu yfir í hugbúnað, hönnun og snyrtivörur sem markaðssettar eru á neytendavörumerkaði. Umgjörðin er til staðar og starfsemin snýst um að skapa öfluga umgjörð aðila sem saman skapa ný verðmæti og mynda hinn „nýja sjávarútveg“ eins og þau Þór og Berta gerðu grein fyrir. Gott dæmi um þetta er fyrirtækið Codland, en fyrirtækið stefnir að því að fullnýta allt „aukahráefni“ sem fellur til við hefðbundna fiskvinnslu þorsks strax á næsta ári. Fjárfestingin er um einn milljarður króna þar sem fjögur af stærstu sjávarútvegsfyrirtækjunum sameina krafta sína til framleiðslu á kollagenpróteini til nota í heilsufæði, fæðubótarefni og lyf.

Heiðrún Lind Marteinsdóttir lögfræðingur og framkvæmdastjóri SAS (Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi) var einnig gestur fundarins og gerði grein fyrir íslenska fiskveiðistjórnunarkerfinu (en til upprifjunar er það aflamarkskerfi sem komið var á í áföngum fyrst árið 1984 og í núverandi mynd 1990). Heiðrún gerði grein fyrir þeim ávinningi sem kerfið hefur haft í för með sér fyrir okkur Íslendinga og ræddi á opinskáan hátt um þau álitamál sem jafnan eru uppi í þessari umræðu. Greining hennar á afkomu greinarinnar frá því um 1980 var áhugaverð, en árin 1980-85 voru útgerðinni erfið. Árið 1985 voru samþykkt ný lög um framsal aflaheimilda og það er ekki fyrr en upp úr 1990 að rofa fer verulega til og um 2000 verða kaflaskil þegar hefðbundin vertíðarímynd sjávarútvegsins breytist í grundvallaratriðum og heilsársstörf verða algengari í greininni. Árið 2004 kom síðan veiðigjaldið til sögunnar, en það er lagt á allar tegundir sjávarafla hér við land.

Mörg okkar sem sóttu fundinn voru að koma í fyrsta sinn inn á hótelið en þess má geta að lokaverkefni Gunnars Vals Gíslasonar í MBA-náminu 2011-2013 (sem starfaði þá sem framkvæmdastjóri byggingarfyrirtækisins Eyktar) fjallaði um uppbyggingu hins svokallað Höfðatorgsreitar þar sem hótelið er staðsett.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is