Ný og sérstök nálgun í kennslu í MBA náminu í Háskóla Íslands | MBA-nám í Háskóla Íslands

Ný og sérstök nálgun í kennslu í MBA náminu í Háskóla Íslands

Runólfur Smári Steinþórsson prófessor og Gylfi Magnússon dósent voru nýverið á árlegri vinnustofu kennara í Samkeppnishæfni sem haldin var í Harvard Business School í Boston. Vinnustofan er miðpunktur alþjóðlegs samstarfs á sviði Samkeppnishæfni sem leitt er af prófessor Michael E. Porter og stofnun hans Institute of Strategy and Competitiveness. Á vinnustofunni var m.a. farið yfir fyrirkomulag kennslu í Samkeppnishæfni á námskeiðum fyrir stjórnendur víða um heim.

Á vinnustofunni flutti Runólfur Smári innlegg um það hvernig kennslu í Samkeppnishæfni er hagað í MBA náminu í Háskóla Íslands, en á þessu skólaári var farin sú leið að flétta námsefninu inn í tvö námskeið í MBA-náminu, annað þeirra, Stefnumótun og samkeppnishæfni sem Runólfur kennir og hitt námskeiðið, Rekstrarumhverfið sem Gylfi kennir. Segja má að með þessu hafi Samkeppnishæfni sem afmörkuðu námsefni verið fléttað inn í tvö námskeið og átt þátt í að tvinna þau saman þannig að útkoman var stærri en summan af námskeiðunum.

Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands hefur tekið þátt í samstarfsnetinu um kennslu og rannsóknir í Samkeppnishæfni sem stjórnað er frá Stofnun Michaels E. Porters, í Harvard Business School, frá því árið 2006. Nú hafa um 330 nemendur lokið námskeiðinu hérlendis. Fulltrúar Háskóla Íslands í þessu neti eru eins og fyrr segir Runólfur Smári Steinþórsson og Gylfi Magnússon. Þeir hafa með reglulegum hætti gert grein fyrir þróuninni á Íslandi á þessu sviði og m.a. hefur Gylfi Magnússon verið með kynningu á hruni íslenska fjármálakerfisins á þessum vettvangi.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is