Alþjóðleg viðurkenning | MBA-nám í Háskóla Íslands

Alþjóðleg viðurkenning

MBA-námið við Háskóla Íslands er alþjóðlega viðurkennt nám (accreditation) frá Association of MBA´s (AMBA). AMBA eru óháð samtök sem hafa það að markmiði að efla gæði menntunar á sviði stjórnunar og reksturs. Um er að ræða með virtustu viðurkenningum sem hægt er að fá fyrir MBA-nám, en rúmlega 200 skólar í heiminum hafa hlotið slíka viðurkenningu. Alþjóðlega vottunarferlið er nokkuð umfangsmikið þar sem sjö gæðavíddir sem tengjast náminu eru skoðaðar. Þær eru:

  • Tengsl námsins við háskólaumhverfið
  • Hæfni kennara og gæði kennslu
  • Stjórnun og þjónusta við nemendur
  • Bakgrunnur nemenda
  • Tilgangur námsins, markmið og hæfniviðmið
  • Námskrá
  • Skipulag námsins

Association of MBA‘s var stofnað 1967 í þeim tilgangi að vera óháður alþjóðlegur eftirlitsaðili með viðskiptanámi á meistarastigi. Viðurkenning þeirra er samkvæmt staðli fyrir MBA-nám. Sjá frekari upplýsingar á vefsíðu AMBA.

Formleg viðurkenning frá AMBA var veitt MBA-náminu við Háskóla Íslands í mars 2014 og endurnýjuð í febrúar 2017 til næstu fimm ára. Það er því einkar ánægjulegt fyrir Háskóla Íslands, núverandi MBA-nemendur og þá tæplega 600 sem hafa brautskráðst með MBA gráðu að námið hafi formlega hlotið þessa viðurkenningu. Allt frá upphafi námsins hefur skipulag þess miðast við víddirnar sem nefndar eru hér að framan og með viðurkenningu AMBA er enn frekar verið að skerpa á gæðum námsins.

Í hópi 2% bestu háskóla

Vottun námsins er einnig ánægjuleg fyrir Háskóla Íslands, en skólinn hefur undanfarin ár verið á matslista Times Higher Education World University Rankings, í hópi 2% efstu af u.þ.b.17.000 háskólum sem starfræktir eru í heiminum í dag. Háskóli Íslands kappkostar að halda þeim árangri og við gæðamat á öllu starfi skólans er notast við alþjóðlega viðurkennda mælikvarða. Það er sérstaklega ánægjulegt að MBA námið sé þar með komið formlega í hóp þeirra bestu  eins og Copenhagen Business School og London Business School. Kennarar hafa sterkt tengsl við atvinnulífið sem ráðgjafar, rannsakendur og leiðbeinendur í verkefnavinnu. Árangur Háskóla Íslands hefur breytt viðhorfum í garð skólans á alþjóðavettvangi og fyrir vikið verða prófskírteini brautskráðra nemenda verðmætari og opna fleiri leiðir.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is